Barnalífeyrir vegna fráfalls
15.1. Andist sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum eða í 6 mánuði á undanförnum 12 mánuðum, notið elli- eða örorkulífeyris eða öðlast rétt til framreiknings skv. gr. 13.5., og eiga þá börn hans og kjörbörn, er hann lætur eftir sig, rétt á lífeyri úr sjóðnum til 20 ára aldurs samkv. gr. 15.3.
Barnalífeyrir vegna örorku
15.2. Sé sjóðfélaga sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins í 24 mánuði á síðustu 36 mánuðum eða uppfyllir skilyrði gr. 13.5.a. og gr. 13.5.b, úrskurðaður örorkulífeyrir úr sjóðnum vegna 100% örorku, á hann rétt á barnalífeyri fyrir börn sín og kjörbörn fædd eða ættleidd fyrir orkutapið, svo og börn fædd á næstu 12 mánuðum þar á eftir. Sé örorka samkvæmt 13. grein metin lægri en 100%, skal barnalífeyrir sjóðsins vera hlutfallslega lægri. Barnalífeyrir, sem greiddur er vegna örorku sjóðfélaga, fellur ekki niður þó að sjóðfélaginn nái ellilífeyrisaldri.
Fjárhæð barnalífeyris
15.3. Fullur barnalífeyrir er 22.117 kr. með hverju barni fyrir hvern almanaksmánuð. Fjárhæðin breytist mánaðarlega í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.
Réttur fósturbarna og stjúpbarna
15.4. Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri enda hafi sjóðfélagi ekki hafið töku ellilífeyris. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera mundu, ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.
Viðtakandi barnalífeyris
15.5. Barnalífeyrir greiðist til barnsins vegna andláts sjóðfélaga en til framfæranda vegna örorku sjóðfélaga.