Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Að fara á eftirlaun

Til hamingju með tímamótin sem eru framundan! Við stiklum hér á stóru um helstu valkosti, samspil þeirra og önnur góð ráð. Ef þú hefur frekari spurningar eru ráðgjafar okkar til taks til að veita þér upplýsingar og ráðgjöf.

 

LIV Lifeyrissjodur Verzlunarmanna Myndabanki 10B 0424 LIV Lifeyrissjodur Verzlunarmanna Myndabanki 10B 0424

Byrjaðu strax að undirbúa lífið eftir vinnu

Það eru margir möguleikar við að hefja töku eftirlauna.  Of margir undirbúa sig seint fyrir þær breytingar sem verða þegar líður að starfslokum.

Því fyrr sem fólk byrjar að undirbúa sig því meiri er ánægjan með breytinguna.  Undirbúningurinn snýr að sjálfsögðu að fjármálum en ekki gleyma að huga að heilsunni og að rækta góð tengsl við þína nánustu.

Þú hefur mikinn sveigjanleika til lífeyristöku

Þú getur byrjað að taka út þinn ævilanga lífeyri og séreignarsparnaðinn þinn frá 60 ára aldri. 67 ára er almennur viðmiðunaraldur lífeyris en þeir sem það kjósa geta hafið úttektina bæði fyrr og síðar en það hefur áhrif á greiðslurnar. 

Ef þú byrjar fyrr að taka út má gera ráð fyrir að þú fáir greiðslur lengur og því er mánaðarleg fjárhæð lægri. Ef þú byrjar seinna, til dæmis 70 ára, má gera ráð fyrir að þú fáir greiðslur í styttri tíma og því verður fjárhæðin hærri. Mundu að þú átt alltaf sama rétt, spurningin er bara á hversu langan tíma hann dreifist. 

Þú hefur marga valmöguleika við úttekt á lífeyri. Gefðu þér tíma til að kafa ofan í málin því þannig færðu meiri þekkingu og skýrari mynd til að taka afstöðu til.

Hálfur eða heill lífeyrir?

Þú getur hafið úttekt eftirlauna að hálfu eða fullu þó þú sért áfram á vinnumarkaði. Þá er mikilvægt að skoða samspil launatekna og lífeyrisgreiðslna, og áhrif þess á skattþrep. Ef þú velur að fá hálfan lífeyri greiddan mánaðarlega þarftu að vera að minnsta kosti í 50% starfshlutfalli til að fá greiðslur frá TR.

 

Þú heldur áfram að ávinna þér lífeyrisréttindi af launatekjum til 70 ára aldurs en eftir það er ekki greitt til lífeyrissjóðs. 

 

Þú getur óskað eftir hálfum eða heilum lífeyri frá lífeyrissjóði frá 60 ára aldri óháð atvinnuþátttöku. Aldursmörkin eru hins vegar 65 ára fyrir hálfan eða heilan lífeyri frá TR.

Margrét Kristinsdóttir Margrét Kristinsdóttir

Margrét Kristinsdóttir

lífeyrissvið

Það eru gömul sannindi og ný að hver er sinnar gæfu smiður og þótt við búum við opinbert velferðarkerfi og öfluga lífeyrissjóði getum við sjálf bætt miklu við lífsgæði efri áranna með fyrirhyggju og skynsemi. Mikilvægast af öllu er að draga það ekki, byrjaðu strax!

Þitt Lífeyrisplan

Gerðu þína lífeyrisáætlun

Á Mínum síðum getur þú séð öll þín réttindi hjá okkur og öðrum sjóðum sem þú hefur greitt í um ævina. Ef þú skráir þig inn geturðu skoðað hver staða þín verður m.v. mismunandi upphafstíma með eða án séreignarsparnaðar. Fáðu heildarmyndina í þinni lífeyrisáætlun.

Mínar síður

Hve mikið þarft þú? 

Hvaða útgjöld lækka og hver hækka?

Lífeyri er ekki ætlað að vera jafnhár og þau laun sem þú hefur haft fyrir fullt starf. Á móti kemur að útgjöldin verða oft töluvert lægri. Hjá flestum minnkar ýmis kostnaður, til dæmis vegna barna og bíla en eykst á móti í tengslum við tómstundir, ferðalög og heilsuna. 

Hefur þú sömu væntingar og maki þinn?

Hjón og sambýlisfólk hafa oft ólíkar væntingar til efri áranna. Mikilvægt er að ræða saman í tíma til að þriðja skeiðið verði sem ánægjulegast. Hvaða áhugamálum ætlið þið að sinna? Sumarbústaður eða ferðalög - kannski bæði?

Hver verður skuldastaðan?

Kostnaður vegna lána eða leigu þegar komið er á eftirlaun hefur mikil áhrif á afkomuna. Gætir þú greitt hraðar upp lánin, til dæmis með séreignarsparnaði eða tekið tímabil í að greiða aukalega inn á höfuðstólinn?

Getur þú farið í hentugra húsnæði?

Annar kostur er að minnka við sig í viðhaldsminna húsnæði. Lífeyrir og annar sparnaður verður mun drýgri ef skuldir eru litlar þegar lífeyrisaldri er náð.

Þeir sem eru á leigumarkaði ættu að kanna möguleika sína hjá félögum sem bjóða hagkvæma leigu eða kaup fyrir 50 ára og eldri.

Taktu stöðuna - hvernig standa réttindi þín?

Byrjaðu á að afla nauðsynlegra gagna til að taka upplýsta ákvörðun um lífeyristökuna:

Hvað færðu mikið á mánuði í lífeyri?

Gerðu lífeyrisáætlun á Mínum síðum miðað við þann tíma sem þú vilt gjarnan byrja að fá lífeyri.

Hverju áttu rétt á hjá TR?

Það er mikilvægt að skoða samspilið við greiðslur frá TR áður en ákvörðun er tekin um upphaf lífeyris. Kannaðu stöðu þína á www.tr.is. Ef þú getur fengið eingreiðslur hjá lífeyrissjóðum sem þú átt lítil réttindi hjá þá er hagstætt að gera það fyrst til að þær greiðslur skerði ekki greiðslur frá TR.

Geturðu unnið áfram ef þú vilt?

Sumir vinnustaðir bjóða fólki að minnka við sig vinnu í þrepum, aðrir gætu boðið breytingu á starfi. Kannaðu hver stefnan er hjá þínum launagreiðanda. Aðrir kjósa að vinna áfram í ýmis konar verktakavinnu, sem viðheldur starfsgetu og felur í sér sveigjanleika.

Hver verður staða mín ef maki fellur frá?

Lífeyrissjóðir greiða allir makalífeyri en hlutfall af réttindum maka og tímalengd makalífeyris er mjög misjöfn milli sjóða. Gott er að kynna sér réttindi til makalífeyris í þeim sjóði sem makinn hefur greitt í.

LIV Lifeyrissjodur Verzlunarmanna Myndabanki 1B 0923 LIV Lifeyrissjodur Verzlunarmanna Myndabanki 1B 0923

Úttekt á séreignarsparnaði

Margir hafa safnað séreignarsparnaði en þann sparnað má taka út frá 60 ára aldri í einni greiðslu eða mörgum.  

Þeir sem eiga tilgreinda séreign geta fengið hana greidda út frá 62 ára aldri á fimm árum eða þeim tíma sem vantar upp á 67 ára aldur.

Hvernig get ég notað séreignarsparnað?

Samspil við TR

Yfir 60% af eftirlaunum sem greidd eru út mánaðarlega á Íslandi eru frá lífeyrissjóðum. Þeir sem hafa tekjur og lífeyri undir 765.431 kr. (m.v. 2024) geta sótt um lífeyri frá TR. Oft kemur það fólki á óvart að það fái greiðslur lífeyris frá TR. 

 

Mikilvægt er að skoða reiknivél TR til að skoða samspil tekna, lífeyris og mögulegra greiðslna frá TR. Það hjálpar við að taka ákvörðun hvenær skuli byrja á lífeyri.

 

Séreignarsparnaður skerðir ekki greiðslur frá TR.

 

Tilgreind séreign skerðir greiðslur frá TR.

 

Frítekjumark atvinnutekna er nú 2.400.000 króna á ári eða 200.000 króna á mánuði. Þegar tekjur fara yfir þau mörk er skerðing 45% af því sem er umfram.