Samþykktir
- Allar samþykktir
- Greinar 1-11. sem varða rekstur, eftirlit og stjórnskipulag sjóðsins
- 12. Ellilífeyrir (Ævilangur lífeyrir)
- 13. Örorkulífeyrir
- 14. Makalífeyrir
- 15. Barnalífeyrir
- Greinar 16-25. greiðslur, séreignardeildir, breytingar samþykkta og gildistaka
- Viðauki A og B - Réttindatöflur og breytingar á áunnum réttindum í A-deild, hluti af samþykktum
Samþykktir á PDF
1. Nafn sjóðsins og heimili
1.1. Sjóðurinn heitir Lífeyrissjóður verzlunarmanna. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík. Erlent hjáheiti sjóðsins er Pension Fund of Commerce.
2. Hlutverk sjóðsins
2.1. Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og
börnum lífeyri eftir þeim reglum, sem hér fara á eftir.
2.2. Sjóðurinn starfar á grundvelli kjarasamnings Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 12. desember 1995 og samnings ASÍ og SA frá 24. apríl 2018 samanber samning VR, Samtaka atvinnulífsins og Félags atvinnurekenda frá 23. apríl 2018.
2.3. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997.
2.4. Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á ellilífeyristryggingar og áskilur sér heimild til að verja þau réttindi umfram önnur við endurskoðun á réttindaákvæðum samþykkta þessara.
3. Deildaskipting
3.1. Við sjóðinn eru starfandi þrjár deildir:
- A-deild, sem er sameignardeild. Í A-deild greiðast lögboðin eða samningsbundin iðgjöld, sbr. gr. 10.1. og 10.2.
- B-deild, sem er séreignardeild. Í B-deild greiðast viðbótariðgjöld, sbr. gr. 10.3.
- C-deild, sem tekur við lífeyrissparnaði í séreign skv. lögum nr. 129/1997, í samþykktum þessum nefnd tilgreind séreign, sbr. gr. 10.3.
3.2. Eftirtaldar greinar samþykktanna eiga aðeins við um A-deild: 8. gr., 11.-18. gr. og gr. 25.2.
19. gr. samþykktanna á aðeins við um B-deild og 20. grein á aðeins við um C-deild.
4. Aðild
4.1. Sjóðfélagar skulu vera allir launþegar, sem eru félagar í VR og kjarasamningar félagsins og vinnuveitenda taka til, nema sérstaklega sé kveðið á um annað í kjarasamningi. Félagsmönnum annarra félaga verslunarmanna er heimil aðild að sjóðnum.
4.2. Ennfremur er þeim launþega rétt og skylt að eiga aðild að sjóðnum, sem byggir starfskjör sín á kjarasamningi VR þar sem hann ákvarðar lágmarksstarfskjör í starfsgreininni eða ráðningarbundin starfskjör launþegans byggjast á þeim samningi og launþeginn á ekki skylduaðild að öðrum lífeyrissjóði.
4.3. Aðild skal hefjast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að launþegi hefur náð 16 ára aldri.
4.4. Sjálfstæðum atvinnurekendum og einstaklingum sem ekki byggja ráðningarbundin starfskjör sín á kjarasamningi er heimil aðild að sjóðnum.
4.5. Stjórn sjóðsins er heimilt að fengnu samþykki þeirra samtaka, sem að sjóðnum standa, að veita heilum launþegahópi aðild að sjóðnum. Umsókn um slíka aðild skal vera skrifleg.
4.6. Sjóðfélagar eru þeir sem greiða eða greitt hafa iðgjald til sjóðsins svo og þeir sem njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum skv. 12. gr. og 13. gr.
4.7. Aðild að sjóðnum fellur niður, ef sjóðfélagi fær útborguð réttindi sín í einu lagi eða þau flytjast samkvæmt samskiptareglum lífeyrissjóða í annan lífeyrissjóð.
4.8. Sjóðfélagar og aðrir launamenn og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi geta greitt til B-deildar sjóðsins iðgjald til séreignarsparnaðar samkvæmt lögum nr. 129/1997 og til C-deildar iðgjald til tilgreindrar séreignar.
5. Stjórn og framkvæmdastjóri
5.1. Stjórn sjóðsins skal skipuð átta mönnum. Fjórir skulu tilnefndir af VR, þrír skulu tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins og einn skal tilnefndur af Félagi atvinnurekenda. Hvert framangreindra aðildarsamtaka sjóðsins tilnefnir einn stjórnarmann til vara.
5.2. Kjörtímabil stjórnar miðast við ársfund sjóðsins. Haga skal tilnefningum í stjórn sjóðsins sem hér greinir.
VR tilnefnir fjóra stjórnarmenn þannig að tveirstjórnarmenn eru tilnefndir annað hvert ár til fjögurra ára í senn. Samtök atvinnulífsins tilnefna þrjá stjórnarmenn, einn eða tvo stjórnarmenn árlega til tveggja ára og Félag atvinnurekenda tilnefnir einn stjórnarmann annað hvert ár til tveggja ára.
VR annars vegar og Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda hins vegar, starfrækja tilnefningarnefndir sem fjalla um hæfi og hæfni þeirra einstaklinga sem gefa kost á sér til setu í stjórn lífeyrissjóðsins, m.a. með tilliti til greinar 5.8. um almennt hæfi stjórnarmanna. VR annars vegar og aðildarsamtök atvinnurekenda hins vegar setja tilnefningarnefndunum starfsreglur.
Ákvæði til bráðabirgða:
Í fyrsta sinn skal tilnefningu hagað þannig að VR tilnefnir 2 stjórnarmenn til fjögurra ára og tvo til tveggja ára, Samtök atvinnulífsins tilnefna einn stjórnarmann til tveggja ára og tvo til eins árs og Félag atvinnurekenda tilnefnir einn stjórnarmann til tveggja ára.
5.3. Stjórnarmaður getur látið af störfum áður en kjörtímabili hans lýkur og tilkynningu þar um skal hann senda stjórn sjóðsins og samtökum þeim er tilnefndu hann.
Tilnefningaraðili hefur heimild til að afturkalla tilnefningu stjórnarmanns áður en kjörtímabili hans lýkur hafi stjórnarmaðurinn brotið gegn starfsskyldum sínum samkvæmt lögum, samþykktum þessum eða öðrum gildandi reglum. Afturköllun tilnefningar skal rökstudd og staðfest af fulltrúum viðkomandi tilnefningaraðila í fulltrúaráði sjóðsins og tilkynnt stjórn sjóðsins formlega.
Láti stjórnarmaður af störfum áður en kjörtímabili hans lýkur tekur varamaður hans sæti í stjórn sjóðsins í hans stað þar til þau samtök er tilnefndu hann hafa tilnefnt nýjan aðalmann í stjórn samkvæmt þeim reglum sem um það gilda samkvæmt samþykktum þessum. Nýr stjórnarmaður situr út kjörtímabil fráfarandi stjórnarmanns.
Fulltrúaráð – Skipan og hlutverk
5.4. Aðildarsamtök lífeyrissjóðsins starfrækja fulltrúaráð lífeyrissjóðsins sem er skipað 50 fulltrúum. VR skipar 25 fulltrúa, Samtök atvinnulífsins skipa 23 fulltrúa og Félag atvinnurekenda skipar 2 fulltrúa. Skipan fulltrúaráðsins fer nánar eftir samningum aðildarsamtaka sjóðsins og þeim reglum sem samtökin setja sér þar um.
5.5. Aðildarsamtök lífeyrissjóðsins skulu tilkynna honum um hverjir sitja í fulltrúaráðinu fyrir hönd viðkomandi samtaka á hverjum tíma. Einnig skal tilkynna um breytingar á skipan fulltrúa. Listi með nöfnum fulltrúa og eftir atvikum varamanna í stað aðalmanna sem mæta á ársfundi skal afhentur stjórn sjóðsins eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðaðan ársfund sjóðsins.
5.6. Stjórn lífeyrissjóðsins skal kalla saman fulltrúaráð lífeyrissjóðsins tvisvar á ári, að hausti og í aðdraganda ársfundar. Á þeim fundum skal ræða málefni sjóðsins, m.a. lykiltölur um afkomu sjóðsins, framvindu fjárfestingarstefnu og eftir atvikum undirbúning samþykktabreytinga. Stjórn er heimilt að kalla fulltrúaráð til aukafundar ef tilefni er til.
5.7. Hlutverk fulltrúaráðs lífeyrissjóðsins er sem hér greinir:
5.7.1. Fulltrúar VR í fulltrúaráði staðfesta stjórnarmenn sem tilnefndir hafa verið af VR, fulltrúar Samtaka atvinnulífsins í fulltrúaráði staðfesta stjórnarmenn sem tilnefndir hafa verið af samtökunum og fulltrúar Félags atvinnurekenda í fulltrúaráði staðfesta þann stjórnarmann sem félagið hefur tilnefnt. Varamenn í stjórn skulu staðfestir með sama hætti. Aðildarsamtök sjóðsins annast framkvæmd funda sinna fulltrúa þar sem staðfesting á tilnefningu stjórnarmanna er til umfjöllunar samkvæmt þeim reglum sem viðkomandi tilnefningaraðili hefur sett sér þar um. Ef einstaklingur sem tilnefndur er af tilnefningaraðila er ekki staðfestur af viðkomandi fulltrúum í fulltrúaráði sjóðsins tilnefnir tilnefningaraðili nýjan einstakling til setu í stjórn sjóðsins eftir sömu reglum.
5.7.2. Fulltrúar í fulltrúaráði fara með atkvæði á ársfundi sjóðsins í umboði aðildarsamtakanna til ákvarðana sem tilgreindar eru í grein 6. Hverjum fulltrúa er heimilt að fara með atkvæði tveggja fulltrúa til viðbótar við eigið atkvæði. Við atkvæðagreiðslu hjá fulltrúaráðinu ræður afl atkvæða nema annað sé áskilið í samþykktum þessum. Komi fram ósk um það frá fjórum eða
fleiri fulltrúum skal viðhafa skipta atkvæðagreiðslu, þannig að fulltrúar VR annars vegar og Samtaka atvinnulífsins og Félags atvinnurekenda hins vegar greiða atkvæði hvor í sínu lagi og þarf þá samþykki a.m.k. 13 fulltrúa í hvorum hluta fulltrúaráðsins til að samþykkt sé lögmæt.
5.7.3. Fulltrúaráðið fylgist almennt með starfsemi sjóðsins, störfum stjórnar og veitir henni aðhald. Ráðið kynnir sér m.a. ársreikning, fjárfestingarstefnu og ársskýrslu sjóðsins.
Almennt hæfi stjórnarmanna
5.8. Um almennt hæfi stjórnarmanna til setu í stjórn lífeyrissjóðsins fer samkvæmt
gildandi lögum á hverjum tíma, nú 1. til 4. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997, með síðari breytingum.
5.8.1. Samtök atvinnurekenda skv. gr. 5.1. skulu tryggja við skipun sinna fulltrúa í stjórn sjóðsins að kynjadreifing stjórnarmanna sé jöfn. Sama gildir um stjórnarmenn skipaða af VR.
5.8.2. Aðildarsamtök lífeyrissjóðsins skulu hafa með sér samráð við tilnefningar sem tryggi að stjórn lífeyrissjóðsins búi sem heild yfir nægilegri þekkingu og reynslu til þess að rækja hlutverk sitt.
5.8.3. Stjórnarmaður skal að hámarki sitja átta ár samfellt sem aðalmaður í stjórn sjóðsins.
Hlutverk stjórnar og verkaskipting
5.9. Stjórnin skiptir með sér verkum, þó þannig að fulltrúar atvinnurekenda og VR hafi á hendi formennsku til skiptis tvö ár í senn. Stjórnin skal setja sér starfsreglur og halda gerðarbók, þar sem skráð skal það sem gerist á stjórnarfundum og skal hún undirrituð af þeim sem fundinn sitja.
Stjórnarfundur er ályktunarbær ef a.m.k. fimm stjórnarmenn eru mættir eða varamenn í þeirra stað. Stjórn skal í störfum sínum taka mið af leiðbeiningum um stjórnarhætti eftir því sem við á m.t.t. starfsemi lífeyrissjóðsins (nú 6. útgáfa leiðbeininga útgefnum af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Kauphöll Íslands). Stjórnarmenn skulu rækja skyldur sínar af
heilindum, hafa möguleika á að verja þeim tíma til stjórnarstarfa sem slík seta krefst og taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig.
5.10. Stjórn lífeyrissjóðsins fer með æðsta vald hans á milli ársfunda. Stjórn sjóðsins skal stuðla að viðgangi sjóðsins og langtímaárangri, hún ber ábyrgð á starfsemi hans og skal annast um að skipulag hans og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Hún tekur stefnumarkandi ákvarðanir, er varða hag og starfsemi sjóðsins, og annast um að nægilegt eftirlit sé haft með daglegum rekstri, þ.m.t. með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórn sjóðsins mótar innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfestir eftirlitsferla.
5.11. Stjórn sjóðsins ræður forstöðumann endurskoðunardeildar eða semur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til að annast innra eftirlit. Stjórnin leggur ennfremur fram tillögu fyrir ársfund um löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til að annast endurskoðun hjá sjóðnum.
Framkvæmdastjóri
5.12. Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og önnur starfskjör, veitir honum prókúruumboð og setur honum starfsreglur. Hann er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í sjóðnum.
5.12.1. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og fer í því efni eftir ákvæðum laga og samþykkta sjóðsins og þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn sjóðsins hefur gefið. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins. Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar.
5.12.2. Daglegur rekstur sjóðsins tekur ekki til ráðstafana, sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn sjóðsins, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana hennar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi sjóðsins. Í slíkum tilvikum skal stjórn sjóðsins tilkynnt um ráðstöfunina. Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald sjóðsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna sjóðsins sé með tryggilegum hætti.
5.12.3. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórn sjóðsins og endurskoðendum allar upplýsingar um hag og starfsemi sjóðsins, sem þeir óska.
Sérstakt hæfi stjórnarmanna
5.13. Reglur II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um sérstakt hæfi gilda, eftir því sem við getur átt, um meðferð mála og ákvarðanatökur í stjórn sjóðsins í einstökum málum.
Hæfi þeirra sem sjóðurinn styður til stjórnarstarfa
5.14. Um almennt og sérstakt hæfi þeirra stjórnarmanna sem sjóðurinn styður til stjórnarstarfa í einstökum félögum gilda reglur félagaréttar og sérreglur viðkomandi félaga. Því til viðbótar er horft til sjónarmiða sem fram koma í stefnum og viðmiðum LV.
Önnur ákvæði varðandi umboð og starfsskyldur
5.15. Stjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd sjóðsins, mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra aðila eða á kostnað sjóðsins.
5.16. Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur sjóðsins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum fyrir sjóðinn og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
Nefnd um laun stjórnarmanna
5.17. Á ársfundi skal kjósa fjóra einstaklinga og tvo til vara í nefnd um laun stjórnarmanna, til tveggja ára í senn. Þar af skal einn nefndarmanna vera formaður stjórnar sjóðsins.
5.17.1. Hlutfall fulltrúa atvinnurekenda og launamanna í nefndinni skal vera jafnt.
5.17.2. Nefndin er ályktunarbær ef þrír nefndarmanna sækja fund. Meirihluti atkvæða ræður ákvörðun nefndarinnar.
5.17.3. Nefndin setur sér starfsreglur og skiptir með sér verkum.
5.17.4. Nefndin skal undirbúa og leggja fram tillögur að launum stjórnarmanna, bæði aðal- og varamanna, fyrir hvern ársfund. Í tillögum sínum skal nefndin miða við að laun stjórnarmanna endurspegli þær kröfur sem gerðar eru til þeirra, m.a. varðandi ábyrgð, sérþekkingu, reynslu og þann tíma sem verja þarf til stjórnarstarfa. Nefndin skal kynna stjórn tillögur sínar eigi síðar en tveimur vikum fyrir ársfund lífeyrissjóðs.
6. Ársfundur
6.1. Ársfund sjóðsins skal halda fyrir lok júní ár hvert.
6.2. Allir sjóðfélagar, fulltrúar í fulltrúaráði sjóðsins, og rétthafar í B- og C- deildum hafa rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti.
6.3. Stjórn sjóðsins skal boða til ársfundar með minnst tveggja vikna fyrirvara og mest fjögurra vikna fyrirvara. Boða skal til fundar opinberlega með auglýsingu og með skriflegu fundarboði til aðildarsamtaka sjóðsins með sama fyrirvara og gildir um boðun ársfundar.
6.4. Stjórn sjóðsins getur boðað til aukaársfundar. Um boðun fundarins vísast í gr. 6.3. Á aukafundi er heimilt að fjalla um sömu efni og fram koma til umfjöllunar á ársfundi og gilda ákvæði um ársfund að breyttum breytanda um aukaársfund.
6.5. Fulltrúaráð skv. 5. gr. fer með atkvæði á ársfundi. Um afl atkvæða fer skv. gr. 5.7.2.
6.6. Ársfundur fer með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðsins sé ekki annað ákveðið í lögum eða samþykktum þessum.
6.6.1. Á ársfundi skal kynna:
6.6.1.1. Skýrslu stjórnar.
6.6.1.2. Ársreikning fyrir síðasta starfsár.
6.6.1.3. Tryggingafræðilega athugun.
6.6.1.4. Fjárfestingarstefnu sjóðsins.
6.6.1.5. Hluthafastefnu sjóðsins.
6.6.1.6. Skipan stjórnar.
6.6.1.7. Skipan fulltrúaráðs.
6.6.2. Á ársfundi skal kynna og bera undir atkvæði:
6.6.2.1. Starfskjarastefnu sjóðsins.
6.6.2.2. Val á fulltrúum í nefnd um laun stjórnarmanna.
6.6.2.3. Tillögu um stjórnarlaun.
6.6.2.4. Tillögu stjórnar að endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki.
6.6.2.5. Tillögur stjórnar til breytinga á samþykktum sjóðsins.
6.6.3. Önnur mál.
6.7. Tillögur til ályktunar sem taka á fyrir á ársfundi þurfa að berast stjórn sjóðsins skriflega eigi síðar en viku fyrir ársfund.
7. Reikningar, endurskoðun og eftirlit
7.1. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Endurskoðaðir reikningar skulu liggja frammi eigi síðar en 1. mars næsta ár.
7.2. Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi. Ársreikningur sjóðsins skal gerður í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju. Um hæfi endurskoðanda fer skv. lögum.
7.3. Eftirlit með starfsemi sjóðsins fer eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 129/1997.
7.4. Iðgjöld sem greidd eru í B-deild og C-deild skulu vera séreign þess rétthafa er greiðir og tilgreind á sérstökum reikningi hans.
7.5. Rekstur B- og C-deildar skal vera fjárhagslega aðskilinn rekstri A-deildar. Sameiginlegum kostnaði skal skipt með eðlilegum og ótvíræðum hætti milli rekstrarþátta deildanna.
7.6. Reikna skal vexti þá, sem færast skulu á einstaka sérreikninga B- og C-deildar í árslok þannig, að vextir hvers sérreiknings séu reiknaðir af eign í ársbyrjun og af inn- og útborgunum á árinu í samræmi við ávöxtun deildarinnar.
8. Tryggingafræðileg athugun
8.1. Ár hvert skal stjórn sjóðsins láta framkvæma tryggingafræðilega athugun á fjárhag A-deildar sjóðsins og meta framtíðarstöðu hans. Skal athugunin vera hluti af reikningsskilum sjóðsins ár hvert. Tryggingafræðileg athugun skal framkvæmd af tryggingastærðfræðingi eða öðrum, sem hlotið hefur viðurkenningu til slíks starfs. Við athugunina skal höfð hliðsjón af ákvæðum IV. kafla reglugerðar nr. 391/1998. Athugunin skal send Fjármálaeftirlitinu.
8.2. Hrein eign lífeyrissjóðsins til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skal vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miðuð við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur mið af.
8.3. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meiri frávik eru á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samkvæmt 8.2 en kveðið er á um í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 er stjórn sjóðsins skylt að gera tillögur til aðildarsamtaka sjóðsins um nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Stjórn sjóðsins er heimil hækkun eða lækkun lífeyrisréttinda sé munur eignarliða og lífeyrisskuldbindinga innan 5% marka að höfðu samráði við tryggingastærðfræðing sjóðsins.
9. Ráðstöfun fjármagns
9.1. Stjórn sjóðsins mótar fjárfestingarstefnu sjóðsins og sér um ráðstöfun á fjármagni hans og er henni skylt að ávaxta það með hliðsjón af þeim kjörum, sem best eru boðin á hverjum tíma, að teknu tilliti til áhættu og með hliðsjón af langtímaskuldbindingum sjóðsins.
Stjórn sjóðsins er heimilt að móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka deild sjóðsins, sbr. gr. 3.1, 19.4. og 20.5.
Fjárfestingar sjóðsins og fjárfestingarstefna hans skulu vera í samræmi við heimildir laga og uppfylla allar þær kröfur um form og efni, sem gerðar eru í ófrávíkjanlegum ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nú VII. kafla l. nr. 129/1997, og bindandi stjórnvaldsfyrirmælum á hverjum tíma.
9.2. Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu þar sem sett eru viðmið um að hvaða marki skuli fjárfesta í einstökum eignaformum, sbr. gr. 9.1. Þar skal enn fremur koma fram markmið m.a. um dreifingu eigna, tímalengd krafna, myntsamsetningu, seljanleika og aðrar þær viðmiðanir, sem stjórn sjóðsins telur að gefi gleggsta mynd af fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins.
9.3. Á ársfundi skal stjórnin leggja fram fjárfestingarstefnu og gera grein fyrir breytingum frá fyrra ári.
10. Iðgjöld
Iðgjaldsstofn og lágmarksiðgjald til sameignardeildar, A-deildar
10.1. Lágmarksiðgjald sjóðfélaga til A-deildar skal vera 12% af heildarlaunum og endurgjaldi fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, hverju nafni sem nefnist og skattskyld eru samkv. 1. mgr. 1. tölulið A-liðar 7. gr. l.nr. 90/2003 um tekjuskatt. Til iðgjaldsstofns teljast þó ekki hlunnindi, sem greidd eru í fríðu, eða greiðslur, sem eru endurgreiðsla á útlögðum kostnaði sbr. 1. mgr. 3. gr. l. nr. 129/1997. Ef um launþega er að ræða skiptist iðgjaldið þannig, að
launþegi greiðir 4% en launagreiðandi 8%.
10.2. Iðgjaldsstofn sjóðfélaga vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal að lágmarki vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sbr. 58. gr. þeirra laga, sbr. einnig 3. gr. laga nr. 129/1997.
Iðgjald til séreignardeilda, B- og C deilda
10.3. Fjárhæð iðgjalds í B-deild, séreignardeild, er frjáls. Hlutfall iðgjalds af iðgjaldsstofni í tilgreinda séreign í C-deild fer eftir ákvörðun sjóðfélaga innan þeirra marka sem lög og samþykktir þessar heimila.
10.4. Iðgjöld, sem greidd eru í B-deild eða C-deild, gefa ekki rétt til lífeyris úr A-deild eða fyrirfram ákveðins lífeyris. Útborgun inneignar í B-deild greiðist út samkvæmt ákvæðum gr. 19.3 og inneign í C-deild greiðist út samkvæmt ákvæðum gr. 20. 4.
Lok iðgjaldsgreiðslna og takmörkun ábyrgðar á skuldbindingum
10.5. Enginn greiði iðgjöld til A-deildar sjóðsins lengur en til 70 ára aldurs.
10.6. Sjóðfélagar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.
Iðgjaldsskil og yfirlit til sjóðfélaga
10.7. Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum launþega eftir af launum hans og standa sjóðnum skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldahluta. Jafnframt skal launagreiðandi senda sjóðnum skilagrein um iðgjöldin. Gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar er 10. næsta mánaðar. Eigi greiðsla sér ekki stað innan þess mánaðar skal innheimta vanskilavexti á vangreidd iðgjöld frá gjalddaga til greiðsludags samkvæmt ákvæðum gildandi vaxtalaga. Launagreiðanda og sjálfstæðum atvinnurekanda ber að tilkynna lífeyrissjóðnum ef honum ber
ekki lengur að standa skil á iðgjaldi þar sem hann hefur hætt starfsemi eða launþegar hans hafa látið af störfum.
10.8. Senda skal greiðandi sjóðfélögum a.m.k. tvisvar á ári yfirlit yfir greidd iðgjöld þeirra vegna. Yfirlitinu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga að gera án tafar athugasemdir, ef vanhöld koma í ljós á iðgjaldaskilum. Hafi athugasemdir frá sjóðfélaga, staðfestar með launaseðlum, ekki borist sjóðnum innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna, er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum á grundvelli iðgjalda þessara að því marki, sem þau fást greidd. Sjóðurinn ber þó ekki ábyrgð á réttindum þeirra iðgjalda sem glatast við gjaldþrot og Ábyrgðarsjóður launa ber ekki ábyrgð á skv. 6. gr. laga nr. 53/1993.
Sjóðurinn skal ennfremur eigi sjaldnar en einu sinni á ári senda hverjum greiðandi sjóðfélaga samhliða greiðsluyfirliti og þeim sem náð hafa ellilífeyrisaldri, upplýsingar um áunnin og væntanleg réttindi hans, um rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins, helstu niðurstöður tryggingafræðilegrar athugunar og breytingar á samþykktum þessum.
Lífeyrissjóðnum er heimilt að skila yfirlitum samkvæmt grein þessari með rafrænum hætti til sjóðfélaga óski sjóðfélagi eftir því eða ef slíkt er heimilt skv. lögum eða öðrum gildandi reglum. Yfirlit skulu þá aðgengileg sjóðfélaga á sjóðfélagavef sjóðsins.
Vanskil iðgjalda
10.9. Iðgjöld í vanskilum, sem sanna má með innsendum launaseðlum, skulu innheimt með sama hætti og skilagreinar launagreiðanda. Heimilt er sjóðnum að byggja innheimtuaðgerðir á áætlunum um ógreidd iðgjöld, enda hafi hlutaðeigandi launagreiðandi ekki skilað inn skilagreinum til sjóðsins fyrir viðkomandi tímabil.
10.10. Allar innborganir launagreiðanda, hvort heldur þær berast með nýrri skilagrein eða öðrum hætti, ráðstafast til greiðslu elstu ógreiddu iðgjalda og vanskilavaxta viðkomandi launagreiðanda. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að víkja frá þessari reglu í þeim tilfellum þegar hafin hefur verið formleg innheimta iðgjalda í vanskilum fyrir ákveðið tímabil og fullnægjandi trygging hefur fengist fyrir greiðslu iðgjalda, vanskilavaxta og innheimtukostnaðar vegna þessa tímabils. Ennfremur ef lög kveða á um annað, sbr. meðferð mála á greiðslustöðvunar-tímabili launagreiðanda. Skilagrein telst ógreidd þar til innborgun nægir til fullrar greiðslu skilagreinarinnar og áfallinna vanskilavaxta á hana.
Skipting réttindaávinnslu milli hjóna
10.11. Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið, að iðgjöld vegna hans, sem ganga til að mynda ellilífeyrisréttindi samkvæmt gr. 10.1. og 10.2., skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans, sbr. gr. 12.8.
11. Grundvöllur lífeyrisréttinda
11.1. Með greiðslum iðgjalda aflar sjóðfélagi sér réttinda til elli- og örorkulífeyris og maka og börnum sínum rétt til maka- og barnalífeyris eftir því sem kveðið er á um í greinum 11 til og með 15 og réttindatöflum I og II sem birtar eru í viðauka A við samþykktir þessar og eru hluti þeirra. Lágmarkstryggingavernd miðast við að innborgun hefjist við 25 ára aldur.
Tafla I fjallar um árleg lífeyrisréttindi frá 67 ára aldri fyrir hvert 10.000 króna iðgjald. Tafla II fjallar um lækkun ellilífeyris þegar taka lífeyris hefst fyrir 67 ára aldur eða hækkun eftir 67 ára aldur. Samanlögð réttindi sjóðfélaga hvert almanaksár mynda grundvöll lífeyrisréttinda hans.
11.2. Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af til lífeyrissjóðsins samkvæmt töflu I í viðauka A, sbr. þó gr. 11.4. Réttindin eru verðtryggð og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá þeim launamánuði sem iðgjald er greitt af. Lífeyrisréttindin eru skilgreind í greinum 12 til og með 15, sbr. þó ákvæði þeirra greina sem fjalla um áframhaldandi jafna ávinnslu lífeyrisréttinda.
Tillögur tryggingastærðfræðings um nýjar réttindatöflur
11.3. Tryggingastærðfræðingur sjóðsins skal gera tillögu til stjórnar um nýjar töflur, í viðauka A, að teknu tilliti til framtíðarstöðu sjóðsins. Hann skal jafnframt gera tillögu um nýjar réttindatöflur þegar núvirði iðgjalda, sem rennur til lífeyrisréttinda samkvæmt aldursháðri réttindatöflu, verður meira en 5% umfram eða undir núvirði aldursháðra framtíðarréttinda. Slíkar breytingar skulu kynntar aðildarsamtökum sjóðsins svo og á ársfundi hans.
Jöfn réttindaávinnsla
11.4. Sjóðfélaga sem á réttindi í sjóðnum í árslok 2005 er heimilt að greiða til hans iðgjöld allt að tilteknu hámarki með jafnri réttindaávinnslu í jafn marga mánuði og viðkomandi hafði greitt iðgjöld til sjóðsins fyrir 42 ára aldur í lok árs 2005. Hafi hann hins vegar greitt iðgjöld lengur en í 5 ár á umræddu tímabili á hann rétt á að greiða allt að viðmiðunariðgjaldi, í jafnri ávinnslu til 70 ára aldurs, sbr. gr. 11.5.
11.5. Hámarksiðgjald til jafnrar ávinnslu á hverju almanaksári, svokallað viðmiðunariðgjald, að hámarki 10% af iðgjaldsstofni, skal ákveðið fyrir hvern sjóðfélaga, sem er á aldrinum 25 til og með 69 ára, jafnhátt því iðgjaldi sem hann greiddi til sjóðsins á árinu 2003 eða síðasta árið sem iðgjald barst sjóðnum hans vegna, hafi það verið fyrr. Viðmiðunariðgjald reiknast ekki fyrir
sjóðfélaga sem eru yngri en 25 ára eða eldri en 70 ára þann 1. janúar 2006. Viðmiðunariðgjald skv. framanskráðu tekur breytingum í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá viðmiðunarári til greiðsluárs hverju sinni.
11.6. Lífeyrisréttindi til jafnrar ávinnslu samkvæmt gr. 11.4. eru reiknuð í krónum sem meðaltal árlegra réttinda fyrir hvert 10.000 króna iðgjald aldursáranna 25 til og með 64 ára skv. töflu I í viðauka A við samþykktir þessar en þar er meðaltalið birt sérstaklega.
11.7. Stjórn sjóðsins skal upplýsa sjóðfélaga um útreikning á viðmiðunariðgjaldi til jafnrar réttindaávinnslu skv. framanskráðu innan þriggja mánaða frá því að hann greiðir fyrst til sjóðsins eftir 1. janúar 2006. Telji sjóðfélagi viðmiðunarárið ekki gefa sanngjarna mynd af venjubundnum iðgjaldsgreiðslum hans s.s. vegna starfshléa eða að greiðslum hefur verið hætt
á árinu getur hann óskað eftir því við stjórn sjóðsins að annað ár verði lagt til grundvallar útreikningi viðmiðunariðgjalds. Stjórn sjóðsins er þá heimilt að miða viðmiðunariðgjald við það næsta ár á undan sem gefur mynd af reglulegum iðgjaldsgreiðslum sjóðfélagans. Ósk um endurskoðun viðmiðunariðgjalds skal berast sjóðnum skriflega í síðasta lagi 9 mánuðum
eftir að sjóðfélaginn fékk tilkynningu um útreikning viðmiðunariðgjalds.
11.8. Iðgjald sem berst umfram viðmiðunariðgjald samkvæmt gr. 11.5. myndar aldurstengd réttindi samkvæmt töflu I í viðauka A.
11.9. Öll iðgjöld sem berast sjóðnum á ári hverju vegna sjóðfélaga sem hefur skilgreint viðmiðunariðgjald skv. framanskráðu, skulu færast í jafnri réttindaávinnslu allt þar til viðmiðunariðgjaldinu er náð eða útreiknuðu iðgjaldsgreiðslutímabili er lokið sbr. gr. 11.4. Sjóðfélagi sem hefur skilgreint viðmiðunariðgjald getur hvenær sem er ákveðið að allt iðgjald hans færist til réttinda eftir aldursháðri réttindatöflu. Ákvörðun sjóðfélaga þar um öðlast
gildi frá upphafi þess árs sem skrifleg tilkynning hans berst sjóðnum og er sú ákvörðun óafturkræf.
11.10. Iðgjöld sem berast sjóðnum vegna þeirra sem greitt hafa skemur til sjóðsins en 5 ár fyrir 42 ára aldur, sbr. gr. 11.4., í lok árs 2005 skulu færast í jafnri réttindaávinnslu í jafn marga mánuði og nemur iðgjaldsgreiðslutímabilinu fyrir 42 ára aldur allt þar til viðmiðunariðgjaldinu er náð. Í þessum tilvikum skal sjóðurinn sérstaklega gæta þess að réttindaávinnsla þeirra sé samkvæmt þeim ávinnslureglum er gefa meiri rétt á hlutaðeigandi tímabili.
11.11. Jafnóðum og iðgjöld tiltekins almanaksárs berast vegna sjóðfélaga sem á skilgreint viðmiðunariðgjald skal skipta því á einstaka mánuði í sömu hlutföllum og þeim iðgjöldum sem hafa borist. Sá hluti iðgjalda hvers mánaðar sem er umfram viðmiðunariðgjald mánaðarins ávinna honum réttindi skv. gr.
11.2. Greiði sjóðfélagi ekki iðgjöld alla mánuði tiltekins almanaksárs skal reikna viðmiðunariðgjald hans í hlutfalli við fjölda greiddra mánaða.
11.12. Við framreikning réttinda skv. ákvæðum 13. og 14. gr. skal reikna með jafnri ávinnslu í samræmi við hlutdeild viðmiðunariðgjalds sjóðfélagans af þeim iðgjöldum sem lögð eru til grundvallar framreikningi.
11.13. Framreikningur skal vera samkvæmt þeim reglum sem giltu þegar réttur til lífeyris varð virkur. Lífeyrisréttindin eru samtala áunninna lífeyrisréttinda og framreiknaðra lífeyrisréttinda, ef slík réttindi hafa verið úrskurðuð.
11.14. Þegar stjórn sjóðsins ákveður aukningu réttinda skulu þau vera greind frá öðrum réttindum. Réttindaaukning er ekki tekin með í framreikningi en hún reiknast að fullu í áunnum réttindum. Ákveði stjórnin lækkun á áunnum réttindum sjóðfélaga skal fara með réttindalækkunina á sama hátt og réttindaaukningu nema að lækkunin kemur til frádráttar áunnum réttindum.
11.15. Stjórn sjóðsins er heimilt að gera samkomulag við aðra lífeyrissjóði sem hafa miðað við jafna réttindaávinnslu á árinu 2003 um gagnkvæma viðurkenningu iðgjaldsgreiðslna til útreiknings viðmiðunariðgjalds skv. framanskráðu. Þá er sjóðnum heimilt að taka þátt í með öðrum sjóðum að halda samræmda tölvuskrá um rétt manna til jafnrar ávinnslu og kveða á um það, hvernig sá réttur deilist niður, sé iðgjald greitt til fleiri sjóða.
11.16. Áunnin réttindi sjóðfélaga vegna iðgjalda til ársloka 2005 skulu varðveitt skv. þeim réttindareglum sem þá giltu. Þau skulu umreiknuð til krónutölu miðað við áunnin stig á hverju ári og þau grundvallarlaun sem í gildi voru í árslok 2005. Þau breytast síðan mánaðarlega í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
Framreikningur
11.17. Við framreikning réttinda, að uppfylltum skilyrðum þar að lútandi skv. gr. 13.5., skal við útreikning maka- eða örorkulífeyris framreikna með meðaltali árlegra iðgjaldagreiðslna þriggja almanaksára fyrir orkutap eða andlát. Nemi meðaliðgjaldið hærri fjárhæð en 1.784.348 kr. skal framreikna með meðaliðgjaldinu í allt að 10 ár, en síðan til 65 ára aldurs með 1.784.348 kr.
iðgjöldum á ári að viðbættum helmingi þess meðaliðgjalds sem umfram er. Fjárhæðirnar breytast í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.
11.18. Nú falla niður launagreiðslur til sjóðfélaga vegna veikinda eða atvinnuleysis og ávinnur hann sér þá ekki réttindi meðan svo stendur. Tímabil, er iðgjaldagreiðslur hafa sannanlega fallið niður af þessum ástæðum, reiknast ekki með, þegar úrskurða skal hvort skilyrði um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt.
Vernd áunninna réttinda
11.19. Réttur til elli-, örorku- og makalífeyris fellur ekki niður þótt sjóðfélagi hætti iðgjaldagreiðslu. Rétturinn miðast þá einungis við áunnin réttindi, sbr. þó gr. 11.17 og 13.11.
12. Ellilífeyrir (Ævilangur lífeyrir)
12.1. Sjóðfélagi á rétt til að hefja töku ellilífeyris, skv. 11. gr. frá 60 ára aldri til 80 ára aldurs.
12.2. Árlegur ellilífeyrir sjóðfélaga sem hefur töku ellilífeyris við 67 ára aldur er jafn samtölu lífeyrisréttinda hans reiknaðra skv. ákvæðum gr. 11.1. og 11.16., skv. töflu I í viðauka A, sbr. þó ákvæði gr. 12.8. um gagnkvæma og jafna skiptingu ellilífeyrisréttinda.
12.3. Ef taka lífeyris hefst fyrir eða eftir 67 ára aldur breytist ellilífeyrir í samræmi við grein 11.1, þ.e. til lækkunar ef taka lífeyris hefst fyrir 67 ára aldur og til hækkunar ef taka lífeyris hefst eftir 67 ára aldur samkvæmt töflu II í viðauka A.
12.4. Þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris er sú ákvörðun endanleg. Réttur til örorkulífeyris fellur því niður frá þeim tíma er greiðsla ellilífeyris hefst.
12.5. Haldi sjóðfélagi áfram að ávinna sér réttindi eftir að hann hefur töku ellilífeyris skal lífeyrir hans endurreiknaður árlega við upphaf hvers aldursárs sjóðfélaga í samræmi við töflu I í viðauka A.
Skipting ellilífeyris á milli hjóna
12.6. Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið, að ellilífeyrisgreiðslur, sem renna eiga til hans, skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Skal lífeyrissjóðurinn þá skipta greiðslum í samræmi við ákvörðun sjóðfélagans, en þær falla niður við andlát hans. Deyi makinn eða fyrrverandi maki, sem nýtur slíkra greiðslna, hins vegar á undan sjóðfélaganum, skulu greiðslurnar allar renna til sjóðfélagans.
12.7. Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ekki síðar en fyrir 65 ára aldur og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum hans, ákveðið, að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka og skerðast þá ellilífeyrisréttindi sjóðfélagans, sem því nemur. Ellilífeyrir makans skal ákvarðast af mati tryggingastærðfræðings sem miðast við, að heildarskuldbindingar sjóðsins aukist ekki við þessa ákvörðun sjóðfélagans.
12.8. Samkomulag sjóðfélaga og maka hans, skv. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997, sbr. gr. 10.11., 12.6. og 12.7. í samþykktum þessum, skal eftir því sem við á fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna ellilífeyrisréttinda beggja aðila, meðan hjúskapur, staðfest samvist eða óvígð sambúð hefur staðið eða stendur.
Heimild til töku hálfs ellilífeyris
12.9. Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku ellilífeyris hjá sjóðnum getur ákveðið að hefja töku ellilífeyris í 50% hlutfalli hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna, sbr. grein 12.4. Ákvæði 12.3 skal gilda um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 67 ára aldur. Ákvæði 12.3. skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 67 ára aldri er náð.
13. Örorkulífeyrir
13.1. Sjóðfélagi, sem ekki er orðinn 67 ára og verður fyrir orkutapi, sbr. gr. 13.2., á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi skv. 11. gr. fram að orkutapi, enda hafi hann greitt í lífeyrissjóð í samtals 24 mánuði og sannanlega orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.
Örorkumat og endurmat
13.2. Örorkulífeyrir er greiddur ef sjóðfélagi er metinn a.m.k. 50% öryrki af trúnaðarlækni sjóðsins. Hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skal ákvarða að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélagans aftur í tímann. Örorku skal meta á þriggja ára fresti eða eftir mati trúnaðarlæknis.
13.3. Örorkumat samkvæmt gr. 13.2. skal fyrstu þrjú árin miða við vanhæfni sjóðfélagans til þess að gegna starfi því, sem hann hefur gegnt og veitti honum aðild að sjóðnum. Að því tímabili loknu skal miða örorkumatið við vanhæfni sjóðfélagans til almennra starfa.
Endurhæfing
13.4. Heimilt er sjóðnum að fengnu áliti trúnaðarlæknis hans að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, sem bætt geti heilsufar hans.
Framreikningur
13.5. Til grundvallar örorkulífeyri á sjóðfélagi, til viðbótar áunnum réttindum skv. 11. gr., rétt á framreikningi réttinda, sbr. þó gr. 11.14., uppfylli hann eftirgreind skilyrði:
- hefur greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og a.m.k. 178.435 kr. hvert þessara þriggja ára. Fjárhæðin breytist í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.
- hefur greitt iðgjald til sjóðsins a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum.
- hefur ekki orðið fyrir orkutapi, sem rekja megi til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.
Við framreikning réttinda skal, auk áunninna réttinda, miða við þau réttindi, sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér til 65 ára aldurs miðað við meðaltal iðgjalda hans næstu þrjú almanaksár fyrir orkutapið sbr. gr. 11.17.
13.6. Reynist þriggja ára meðaltal sjóðfélagans samkvæmt gr. 13.5. óhagstætt vegna sjúkdóma eða atvinnuleysis, er heimilt að leggja til grundvallar meðaltal réttinda átta almanaksára fyrir orkutapið og sleppa því almanaksári sem lakast er sem og því almanaksári sem hagstæðast er. Hafi sjóðfélagi greitt iðgjöld í skemmri tíma en átta ár fyrir orkutapið skal reikna út frá viðkomandi árafjölda.
13.7. Nú hafa iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til lífeyrissjóða verið svo stopular að þær hafa fallið niður eða verið innan við 178.435 kr. á ári fleiri en eitt almanaksár eftir lok þess árs er sjóðfélagi náði 25 ára aldri, skal þá framreikningstími styttur í hlutfallinu milli fjölda almanaksára sem árleg iðgjöld hafa verið undir 178.435 kr. og fjölda almanaksára frá 25 ára aldri fram til orkutaps. Fjárhæðin breytist í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.
13.8. Hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings skv. gr. 13.5, sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði í allt að 36 mánuði, vegna náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna eftir mati sjóðsins, skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eftir sex mánuði frá því að hann hefur aftur greiðslu iðgjalds til sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn getur óskað eftir gögnum til sönnunar á því að sjóðfélagi hafi ekki haft tekjur á umræddu tímabili, sem og kallað eftir öðrum gögnum sem þörf er á til að meta skilyrði
ákvæðisins, og sett slík gagnaskil sem skilyrði fyrir beitingu greinarinnar.
13.9. Ekki er greiddur örorkulífeyrir, ef orkutap skv. gr. 13.2. hefur varað skemur en í sex mánuði. Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuði frá orkutapi.
13.10. Örorkulífeyrir er jafnhár lífeyrisréttindum skv. gr. 13.1. og 13.5. margfölduðum með örorkuprósentunni skv. gr. 13.2.
Viðmiðunartekjur, samspil örorkulífeyris og tekjutaps
13.11. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir vegna örorkunnar. Við mat á tekjumissi er tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og frá öðrum lífeyrissjóðum svo og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar. Því til sönnunar getur lífeyrissjóðurinn krafist vottorða frá skattstofu, vinnuveitanda o.s.frv.
13.12. Til mats á því hvort tekjuskerðing hafi orðið vegna örorkunnar skal úrskurða sjóðfélaganum viðmiðunartekjur, sem skulu vera meðaltal tekna sjóðfélagans síðustu þrjú almanaksár fyrir orkutapið verðbættar til úrskurðardags, sbr. lokamálsgrein gr. 13.5., gr. 13.6. og gr. 13.8. um framreikning. Frá úrskurðardegi skulu viðmiðunartekjurnar taka breytingum í samræmi við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs.
Umsókn um örorkulífeyri
13.13. Skylt er sjóðfélaga, sem sækir um örorkulífeyri eða nýtur hans, að láta sjóðnum í té allar upplýsingar um heilsufar sitt og tekjur, sem nauðsynlegar eru, til þess að dæma um rétt hans til örorkulífeyris. Þá er örorkulífeyrisþegum skylt að upplýsa sjóðinn um breytingar á högum sínum að því marki sem þær kunna að hafa áhrif á rétt til greiðslu lífeyris eða fjárhæð hans, svo sem er varðar heilsufar eða tekjur.
Mörk örorkulífeyris og ellilífeyris
13.14. Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur eða fyrr ef starfsorka eykst eða tekjur aukast þannig að skilyrðum gr. 13.11. er ekki lengur fullnægt. Ellilífeyrir skal þá ákveðinn þannig, að auk áunninna réttinda skal reikna að þeim hluta, er hundraðshluti örorku á hverjum tíma segir til um, réttindi, sem við úrskurð örorkulífeyris voru reiknuð sjóðfélaganum fram til 65 ára aldurs í samræmi við gr. 13.5.
14. Makalífeyrir
Réttur til makalífeyris
14.1. Nú andast sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins og á þá eftirlifandi maki hans rétt til lífeyris úr sjóðnum samkvæmt þeim reglum sem hér fara á eftir, sbr. þó gr. 11.19.
Lágmarksgreiðslutímabil
14.2. Óskertur makalífeyrir skv. gr. 14.7. er ætíð greiddur eftirlifandi maka í minnst 36 mánuði og að hálfu í 24 mánuði til viðbótar.
Réttur vegna yngsta barns
14.3. Eftirlifandi maki fær þó ávallt greiddan makalífeyri þar til yngsta barn sem var á framfæri sjóðfélagans nær 23 ára aldri enda sé það á framfæri makans.
Eftirlifandi maki er öryrki
14.4. Ef maki sjóðfélaga er að minnsta kosti 50% öryrki við andlát sjóðfélaga og yngri en 65 ára hlýtur hann lífeyri úr sjóðnum, þó eigi lengur en til 67 ára aldurs, sem er sami hundraðshluti af makalífeyri samkvæmt gr. 14.7. og orkutap hans er metið en þó ekki lægri fjárhæð en sem nemur 60% af áunnum örorkulífeyri sjóðfélagans við andlát miðað við 100% örorku. Örorku skal meta á þriggja ára fresti eða eftir mati trúnaðarlæknis.
Maki fæddur fyrir 1945
14.5. Ef maki sjóðfélaga er fæddur fyrir 1945 á hann rétt á makalífeyri. Makalífeyrir reiknast samkvæmt gr. 14.7. en lækkar um 2% fyrir hvert ár, sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1925, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1930, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1935 og 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1940.
Verðbætt iðgjald
14.6. Maki sjóðfélaga getur þó ávallt valið um hvort hann fær greiddan makalífeyri skv. ákvæðum gr. 14.2. - 14.5. eða fái greiddan makalífeyri, sem jafngildir þeim verðbættu iðgjöldum, sem greidd hafa verið vegna sjóðfélagans til og með iðgjaldsmánuðinum desember 2014, en að frádregnum verðbættum örorkueða ellilífeyri sem sjóðfélaginn kann að hafa notið. Mánaðafjöldinn, sem greiða skal makanum lífeyri samkvæmt þessari aðferð, fæst með því að deila í verðmæti iðgjaldanna, að frádregnum lífeyri sjóðfélagans, með makalífeyri skv. ákvæðum gr. 14.2. - 14.5.
Fjárhæð makalífeyris
14.7. Fjárhæð makalífeyris nemur 60% af lífeyrisréttindum samkvæmt gr. 13.5.
Niðurfelling makalífeyris
14.8. Réttur til makalífeyris fellur niður, ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar, eða stofnar til staðfestrar samvistar.
Hugtakið maki
14.9. Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans.
15. Barnalífeyrir
Barnalífeyrir vegna fráfalls
15.1. Andist sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum eða í 6 mánuði á undanförnum 12 mánuðum, notið elli- eða örorkulífeyris eða öðlast rétt til framreiknings skv. gr. 13.5., og eiga þá börn hans og kjörbörn, er hann lætur eftir sig, rétt á lífeyri úr sjóðnum til 20 ára aldurs samkv. gr. 15.3.
Barnalífeyrir vegna örorku
15.2. Sé sjóðfélaga sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins í 24 mánuði á síðustu 36 mánuðum eða uppfyllir skilyrði gr. 13.5.a. og gr. 13.5.b, úrskurðaður örorkulífeyrir úr sjóðnum vegna 100% örorku, á hann rétt á barnalífeyri fyrir börn sín og kjörbörn fædd eða ættleidd fyrir orkutapið, svo og börn fædd á næstu 12 mánuðum þar á eftir. Sé örorka samkvæmt 13. grein metin lægri en 100%, skal barnalífeyrir sjóðsins vera hlutfallslega lægri. Barnalífeyrir, sem greiddur er vegna örorku sjóðfélaga, fellur ekki niður þó að sjóðfélaginn nái ellilífeyrisaldri.
Fjárhæð barnalífeyris
15.3. Fullur barnalífeyrir er 22.117 kr. með hverju barni fyrir hvern almanaksmánuð. Fjárhæðin breytist mánaðarlega í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.
Réttur fósturbarna og stjúpbarna
15.4. Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri enda hafi sjóðfélagi ekki hafið töku ellilífeyris. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera mundu, ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.
Viðtakandi barnalífeyris
15.5. Barnalífeyrir greiðist til barnsins vegna andláts sjóðfélaga en til framfæranda vegna örorku sjóðfélaga.
16. Tilhögun lífeyrisgreiðslna
16.1. Umsókn um lífeyri skal vera á því formi sem lífeyrissjóðurinn ákveður.
16.2. Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á.
16.3. Lífeyrir skal greiddur fyrir þann mánuð, sem réttur til hans stofnast, og fyrir þann mánuð, sem réttur til hans fellur úr gildi.
16.4. Örorku- og makalífeyri skal ekki greiða lengur aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn barst sjóðnum. Greiðslur samkvæmt þessu ákvæði skulu vera á verðlagi hvers tíma. Vextir greiðast ekki á lífeyrisgreiðslur. Ellilífeyrir er greiddur eftir að umsókn berst til sjóðsins og greiðist ekki aftur í tímann. Hafi ekki borist umsókn um ellilífeyri við 70 ára aldur sjóðfélaga skal senda bréf til sjóðfélaga með upplýsingum um lífeyrisrétt.
16.5. Lífeyrir greiðist lífeyrisþeganum (sbr. þó gr. 15.5.) eða þeim, sem hann veitir til þess skriflegt umboð.
16.6. Lífeyrisgreiðslur, sem ekki er vitjað innan fjögurra ára, renna til sjóðsins.
16.7. Nú nær lífeyrisgreiðsla ekki fjárhæð, er svarar til a.m.k 5.576 kr. á mánuði og er þá heimilt að inna greiðsluna af hendi í einu lagi. Fjárhæðin breytist mánaðarlega í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.
17. Endurgreiðsla iðgjalda
17.1. Heimilt er skv. umsókn að endurgreiða iðgjöld erlendra ríkisborgara sem hverfa úr sjóðnum vegna brottflutnings úr landi, enda sé slík endurgreiðsla ekki óheimil samkvæmt milliríkjasamningum, sem Ísland er aðili að eða viðkomandi hafi verið íslenskur ríkisborgari þegar réttindin urðu til. Heimilt er að draga frá endurgreiddu iðgjaldi að viðbættum vöxtum kostnað vegna tryggingaverndar, sem sjóðfélaginn hefur notið, og kostnað vegna umsýslu samkvæmt forsendum tryggingastærðfræðings. Óheimilt er að endurgreiða iðgjöld ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES) skv. gildandi milliríkjasamningum.
17.2. Hafi iðgjöld verið endurgreidd, fellur niður sá lífeyrisréttur, sem grundvallaðist á þeim.
18. Samningar um gagnkvæm réttindi, o.fl.
18.1. Heimilt er stjórn sjóðsins að gera samninga við aðra lífeyrissjóði um tilhögun réttindaflutnings o.fl. Í slíkum samningum má víkja frá biðtíma og bótaákvæðum samþykkta þessara í því skyni að koma í veg fyrir niðurfall réttinda, þegar sjóðfélagi skiptir um starf, og tvítryggingu réttinda, sem ekki miðast við liðinn iðgjaldagreiðslutíma. Ennfremur er þar heimilt að ákveða, að sjálfstæð réttindi í einstökum sjóðum skuli samanlagt ekki vera meiri en
heildarréttindin mundu verða hjá einum og sama sjóði. Slíkir samningar eru þó ekki bindandi fyrir sjóðinn fyrr en þeir hafa hlotið samþykki VR og þeirra samtaka atvinnurekenda, sem að sjóðnum standa, sbr. 2. mgr. 2. gr.
18.2. Stjórn sjóðsins skal heimilt, að fengnu samþykki aðildarsamtaka sjóðsins, að yfirtaka eignir og skuldbindingar annarra lífeyrissjóða, enda séu tryggingafræðilegir útreikningar lagðir til grundvallar við yfirtökuna.
19. B-deild – séreignardeild
Samningur - endurgreiðsla
19.1. Þeir, sem óska eftir aðild að B-deild, sbr. gr. 4.8., skulu gera um það skriflegan samning við sjóðinn samkvæmt ákvæðum laga nr. 129/1997, reglugerðar nr. 391/1998 og reglugerðar nr. 698/1998.
19.2. Samningi skv. gr. 19.1. er hægt að segja upp með tveggja mánaða fyrirvara. Samningi má segja upp ef rétthafi skv. samningnum hættir því starfi, sem var forsenda fyrir greiðslu hans til B-deildar. Uppsögn slíks samnings veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda. Óski rétthafi þess er heimilt að gera samning um flutning innstæðu eða réttinda eftir uppsögn til aðila, sem heimild hefur skv. lögum nr. 129/1997 til að taka við séreignarsparnaði og gera samning þar um.
19.3. Inneign rétthafa í B-deild greiðist út samkvæmt eftirfarandi reglum þó aldrei fyrr en tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds.
19.3.1. Lífeyrisgreiðslur úr B-deild geta hafist þegar rétthafi er orðinn 60 ára, heimilt er að greiða út lífeyrissparnað ásamt vöxtum hvort heldur sem er í eingreiðslu eða jöfnum greiðslum.
19.3.2. Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er metið 100% af trúnaðarlækni sjóðsins á hann rétt á að fá inneign sína í B deild greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum eða á þeim tíma sem vantar uppá 60 ára aldur. Nú er örorkuprósentan lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum útgreiðslutíma ef innstæðan er undir 1.478.386 kr. Fjárhæðin breytist í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.
19.3.3. Við andlát rétthafa, sem á inneign á séreignarreikningi í B-deild, greiðist inneign hans til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga um lögerfðir. Láti rétthafi ekki eftir sig börn eða maka, skal innstæðan renna til dánarbús rétthafa án takmarkana samanber 2. málslið 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.
19.4. Stjórn sjóðsins er heimilt að bjóða upp á fleiri en eina ávöxtunarleið í B-deild og móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka ávöxtunarleið í samræmi við ákvæði 36. gr. laga nr. 129/1997, sem rétthafi getur valið um í samningi sínum við sjóðinn. Bjóði sjóðurinn upp á fleiri en eina ávöxtunarleið fyrir séreignardeild getur sjóðfélagi óskað eftir flutningi á milli ávöxtunarleiða eftir þeim reglum sem stjórn sjóðsins setur. Hafi sjóðfélagi ekki valið fjárfestingarleið færist hún sjálfvirkt milli ævileiða sjóðsins eftir aldri sjóðfélaga samkvæmt fjárfestingarstefnu.
20. C-deild – tilgreind séreign
Samningur - endurgreiðsla
20.1. Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa allt að 3,5% iðgjaldi af iðgjaldsstofni umfram 12% af iðgjaldsstofni í tilgreinda séreign sem vistað skal í C-deild, enda sé gert ráð fyrir slíku í kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Fram til 1. júlí 2018 skal 3,5% viðmiðið í 1. málslið þessarar greinar vera 2%.
20.2. Þeir, sem óska eftir aðild að C-deild, sbr. gr. 4.8., skulu tilkynna það til sjóðsins með sannanlegum hætti eftir þeim reglum sem sjóðurinn setur í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerða. Sjóðfélagar geta með sama hætti tilkynnt um að þeir óski þess að láta af greiðslum til tilgreindrar séreignar að hluta eða fullu og rennur iðgjaldið þá eftirleiðis til sameignardeildar.
20.3. Lífeyrissjóðurinn skal gera breytingar á ráðstöfun iðgjalds til samræmis við tilkynnta ákvörðun sjóðfélaga, eins fljótt og kostur er og eigi síðar en innan tveggja almanaksmánaða frá því að tilkynning berst með sannanlegum hætti. Ákvörðun um breytingu á ráðstöfun iðgjalds til framtíðar hefur ekki áhrif á þegar ráðstafað iðgjald.
20.4. Inneign rétthafa í C-deild greiðist út samkvæmt eftirfarandi reglum.
20.4.1. Sjóðfélaga er heimilt að hefja úttekt úr C-deild frá 62ja ára aldri og skulu greiðslur þá dreifast að lágmarki á þann tíma sem hann á eftir fram að 67 ára aldri. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum útgreiðslutíma ef innstæðan er undir 1.478.386 kr. Fjárhæðin breytist í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.
20.4.2. Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er metið 100% af trúnaðarlækni sjóðsins á hann rétt á að fá inneign sína í C-deild greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum eða á þeim tíma sem vantar uppá 60 ára aldur. Nú er örorkuprósentan lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum útgreiðslutíma ef innstæðan er undir 1.478.386 kr. Fjárhæðin breytist í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.
20.4.3. Við andlát rétthafa, sem á inneign á séreignarreikningi í C-deild, greiðist inneign hans til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga um lögerfðir. Láti rétthafi ekki eftir sig börn eða maka, skal innstæðan renna til dánarbús rétthafa án takmarkana samanber 2. málslið 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.
20.5. Stjórn sjóðsins er heimilt að bjóða upp á eina eða fleiri ávöxtunarleiðir í C deild. Móta skal sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka ávöxtunarleið í samræmi við ákvæði 36. gr. laga nr. 129/1997, með síðari breytingum. Ef boðið er upp á fleiri en eina ávöxtunarleið tilkynnir sjóðfélagi um val milli leiða með tilkynningu til sjóðsins á formi sem sjóðurinn ákveður. Bjóði sjóðurinn upp á fleiri en eina ávöxtunarleið fyrir C-deild getur sjóðfélagi óskað eftir flutningi á milli ávöxtunarleiða eftir þeim reglum sem stjórn sjóðsins setur. Hafi sjóðfélagi ekki valið fjárfestingarleið færist hún sjálfvirkt milli ævileiða sjóðsins eftir aldri sjóðfélaga samkvæmt fjárfestingarstefnu.
21. Upplýsingaskylda
21.1. Til viðbótar við upplýsingagjöf skv. gr. 10.8 skal einu sinni á ári birta opinberlega með auglýsingu í dagblaði eða á annan skilmerkilegan hátt helstu niðurstöður úr starfsemi sjóðsins, þar sem m.a. komi fram helstu niðurstöður úr rekstri, efnahag og tryggingafræðilegri athugun.
22. Framsal, veðsetning og aðför lífeyris
22.1. Réttur til lífeyris verður eigi af hendi látinn né veðsettur.
22.2. Lífeyrisgreiðslur eru undanþegnar aðför.
22.3. Inneignir í B-deild og C-deild verða hvorki framseldar né veðsettar, hvort heldur sem heild eða hluti þeirra, né ráðstafað á annan hátt en heimilt er samkvæmt samþykktum þessum eða ákvæðum laga nr. 129/1997, með síðari breytingum.
23. Gerðardómur
23.1. Rísi ágreiningur um samþykktir þessar milli samtaka, er að sjóðnum standa, skal vísa honum til gerðardóms, sem skipaður skal þremur mönnum. Ágreiningsaðilar tilnefna hvor um sig einn gerðardómsmann og oddamaður, sem jafnframt er formaður dómsins, skal skipaður af Hæstarétti Íslands.
23.2. Vilji sjóðfélagi ekki una úrskurði stjórnar sjóðsins í máli, er hann hefur skotið til hennar, getur hann vísað málinu til gerðardóms. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því tilkynnt var bréflega um úrskurðinn. Gerðardómurinn skal skipaður þremur mönnum, einum tilnefndum af sjóðfélaga, einum af lífeyrissjóðnum og oddamanni tilnefndum af Hæstarétti Íslands, sem skal vera formaður dómsins. Gerðardómurinn skal úrskurða í málinu á grundvelli þeirra krafna, sönnunargagna, málsástæðna og annarra upplýsinga, sem lágu fyrir sjóðsstjórn, er hún tók ákvörðun sína í málinu.
Komi fram ný sönnunargögn, málsástæður eða upplýsingar við meðferð málsins fyrir gerðardómi, skal málinu vísað aftur til sjóðsstjórnar til endurupptöku. Sjóðsstjórn er þá skylt að taka málið upp að nýju til úrskurðar. Úrskurður gerðardóms er bindandi fyrir báða aðila. Málskostnaði skal skipt milli málsaðila eftir mati dómsins, en þó skal sjóðfélaginn ekki greiða meira en 1/3 hluta málskostnaðar.
23.3. Um málsmeðferð samkvæmt gerðardómi fer samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma.
24. Breytingar á samþykktunum
24.1. Breytingar á samþykktum þessum eru samningsatriði milli VR og þeirra samtaka atvinnurekenda sem að sjóðnum standa, sbr. gr. 2.2. og 5.1.
24.2. Til að breyting á samþykktum öðlist gildi þarf hún samþykki allra aðildarsamtaka sjóðsins sbr. gr. 2.2., samþykki fulltrúaráðs á ársfundi lífeyrissjóðsins og staðfestingu fjármálaráðherra.
24.3. Tillaga til breytinga á samþykktunum skal lögð fram og kynnt hverju aðildarsamtaka sjóðsins fullum tveimur mánuðum áður en afstaða til tillögunnar þarf að liggja fyrir. Breytingartillaga skal tekin til afgreiðslu hjá aðildarsamtökum sjóðsins, þegar gerð hefur verið grein fyrir henni á ársfundi sjóðsins. Miði tillaga að aukningu réttinda eða ætla má að hún geti haft áhrif á getu sjóðsins til greiðslu lífeyris skal henni fylgja tryggingafræðileg athugun á
afleiðingum breytingartillögunnar á gjaldhæfi sjóðsins.
24.4. Stjórn sjóðsins er heimilt að gera breytingar á samþykktum þessum án þess að bera þær undir aðildarsamtök sjóðsins og fulltrúaráð á ársfundi, ef þær leiða af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerða. Breytingar sem gerðar eru með heimild í þessu ákvæði skulu kynntar á næsta ársfundi sjóðsins.
25. Gildistaka
25.1. Samþykktarbreytingar taka gildi, að fengnu samþykki aðildarsamtaka lífeyrissjóðsins og fulltrúaráðs á ársfundi, sbr. gr. 24 í samþykktum sjóðsins og staðfestingu ráðherra, sbr. 28. gr. laga nr. 129/1997, með síðari breytingum.
25.2 Samþykktabreytingar sem samþykktar voru á ársfundi 19. mars 2024 taka gildi við staðfestingu ráðherra á breytingunum að frátöldum töflum I og II í viðauka A við samþykktirnar sem taka gildi 1. janúar 2025.
25.3. Lífeyrisþegar, sem áttu betri rétt samkvæmt eldri samþykktum, skulu halda þeim rétti. Þetta ákvæði hefur ekki áhrif á innleiðingu breytinga samkvæmt viðaukum A og B við samþykktirnar.
Ákvæði 1 til bráðabirgða:
Á árunum 2023-2025 skal margfalda niðurstöðu framreiknings réttinda skv. grein 13.5. með stuðlinum úr eftirfarandi töflu fyrir þá sem úrskurðaðir verða á örorkulífeyri á hverju ári um sig:
- Árið 2023 1,06
- Árið 2024 1,04
- Árið 2025 1,02
Eftir 2025 verður framreikningur réttinda í samræmi við grein 13.5 og þessi grein fellur brott.
Samþykktir með breytingum sem samþykktar voru á ársfundi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, 19. mars 2024.
Stefán Sveinbjörnsson,formaður stjórnar
Jón Ólafur Halldórsson, varaformaður stjórnar
Árni Stefánsson, meðstjórnandi
Bjarni Þór Sigurðsson, meðstjórnandi
Guðmunda Ólafsdóttir, meðstjórnandi
Guðrún Ragna Garðarsdóttir, meðstjórnandi
Ólafur R. Gunnarsson, varamaður
Sigrún Helgadóttir, meðstjórnandi
Tafla I: Árleg lífeyrisréttindi frá 67 ára aldri fyrir hvert 10.000 króna iðgjald sem sjóðfélagi greiðir á hverju aldursári
Réttindatöflur I og II, samanber gr. 11.1, gilda frá og með 1. janúar 2025. Töflurnar koma í stað áður gildandi réttindataflna nr. I til IV sem tóku gildi 1. janúar 2023.
Tafla I: Árleg lífeyrisréttindi frá 67 ára aldri fyrir hvert 10.000 króna iðgjald sem sjóðfélagi greiðir á hverju aldursári
Réttindi í jafnri ávinnslu eru meðaltal réttinda 25 til og með 64 ára eða 1.202 krónur á ári
fyrir hvert 10.000 króna iðgjald.
Forsendur:
- Vextir 3,5% p.a. reiknaðir einu sinni á ári.
- Dánar- og eftirlifendatöflur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) frá árinu 2019 með sérhæfðu frádragi frá staðlaðri dánatíðni sem byggir á reynslu sjóðfélaga LV árin 2018-2022. Gert er ráð fyrir lækkandi dánartíðni sjóðfélaga til framtíðar skv. spá FÍT frá árinu 2021.
- Örorkulíkur sem byggja á reynslu sjóðfélaga árin 2010-2014.
Kynjahlutfall: Karlar 53%. Konur 47%
Tafla I sem gildir út árið 2024
Tafla II: Lækkun ellilífeyris þegar taka lífeyris hefst fyrir 67 ára aldur eða hækkun eftir 67 ára aldur.
Margfalda skal réttindi skv. töflu I með viðeigandi margfeldisstuðli miðað við lífeyristökualdur.
Tafla II sem gildir út árið 2024:
Viðauki B – Breytingar á áunnum réttindum í A-deild, hluti af samþykktum
Yfirlit um sérstakar breytingar á áunnum lífeyrisréttindum Lífeyrissjóðs verslunarmanna, samþykktar af stjórn sjóðsins að fengnu áliti aðildarsamtaka sjóðsins skv. gr. 8.3. í samþykktunum og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
- Þann 20.1.2006 samþykkti stjórn sjóðsins 4% hækkun áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2005 og fyrr. Hækkunin var færð sem áunnin skuldbinding í réttindakerfi sjóðsins í desember 2005 og öðlaðist gildi við greiðslu lífeyris frá og með janúarmánuði 2006, sbr. gr. 11.14. í samþykktunum.
- Þann 9.1.2007 samþykkti stjórn sjóðsins 7% hækkun áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2006 og fyrr. Hækkunin var færð sem áunnin skuldbinding í réttindakerfi sjóðsins í desember 2006 og öðlaðist gildi við greiðslu lífeyris frá og með janúarmánuði 2007, sbr. gr. 11.14. í samþykktunum.
- Þann 26.3.2010 samþykkti stjórn sjóðsins 10% lækkun áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2009 og fyrr. Lækkunin var færð sem lækkun á áunninni skuldbindingu í réttindakerfi sjóðsins í desember 2009 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með júlímánuði 2010, sbr. gr. 11.14. í samþykktum sjóðsins.
- Þann 30.9.2021 samþykkti stjórn sjóðsins 10% hækkun áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sameignardeild sjóðsins á árinu 2020 og fyrr. Hækkunin var færð sem áunnin skuldbinding í réttindakerfi sjóðsins miðað við desember 2020 og öðlaðist gildi við greiðslu lífeyris frá og með nóvember mánuði 2021. Sjóðurinn mun á sama tíma greiða 10% leiðréttingu á lífeyri fyrir mánuðina janúar til og með október 2021. Breytingin er framkvæmd sbr. gr. 11.14. í samþykktunum.
- Þann 25.2.2022 samþykkti stjórn sjóðsins 12% hækkun áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sameignardeild sjóðsins á árinu 2021 og fyrr. Hækkunin var færð sem áunnin skuldbinding í réttindakerfi sjóðsins miðað við desember 2021 og öðlaðist gildi í samræmi við gildistökuákvæði í 25. gr. samþykktanna. Breytingin er framkvæmd sbr. gr. 11.14. í samþykktunum.
- Þann 25.2.2022 samþykkti stjórn sjóðsins að innleiða nýjar dánar- og eftirlifendatöflur sem staðfestar voru af fjármála- og efnahagsráðherra í desember 2021 og koma í stað eldri taflna sem byggðu á reynslu árin 2014-2018. Breytingin öðlaðist gildi í samræmi við gildistökuákvæði í 25. gr. samþykktanna. Breytingin er framkvæmd sbr. gr. 11.14. í samþykktunum.
Vegna ofangreinds og til samræmis tillögu tryggingastærðfræðings sjóðsins skal endurreikna áunnin réttindi til ellilífeyris samkvæmt a. og b. hér að neðan.
a) Reikna skal áfallnar skuldbindingar sjóðsins vegna allra lífeyrisþega, nema barnalífeyrisþega, ásamt skuldbindingum vegna annarra sem hafa náð 65 ára aldri, annarsvegar samkvæmt nýjum dánar- og eftirlifendatöflum og hinsvegar samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum. Útreikningarnir skulu miða við 31.12.2021. Áunnin réttindi sjóðfélaga samkvæmt hinum nýju dánar- og eftirlifendatöflum eru endurreiknuð þannig að áfallnar skuldbindingar A-deildar vegna þessa hóps verði sama hlutfall af áföllnum skuldbindingum A-deildar og þær voru samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum.
Af ofangreindu leiðir að áunnin réttindi sjóðfélaga sem hafa náð 65 ára aldri fyrir 1. janúar 2022, og áunnin réttindi lífeyrisþega annarra en barnalífeyrisþega, lækka um 4,3%.
b) Reikna skal áfallnar skuldbindingar vegna annarra sjóðfélaga en tilgreinir í a-lið þessarar greinar, nema barnalífeyrisþega, annarsvegar samkvæmt nýjum dánarog eftirlifendatöflum og hinsvegar samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum. Útreikningarnir skulu miða við 31.12.2021. Áunnin réttindi sjóðfélaga samkvæmt hinum nýju dánar- og eftirlifendatöflum eru endurreiknuð þannig að áfallnar skuldbindingar hvers fæðingarárgangs þessa hóps verði sama hlutfall af áföllnum skuldbindingum A-deildar og þær voru samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum.
Þannig eru áunnin réttindi hvers fæðingarárgangs umreiknuð þannig að áfallnar skuldbindingar A- deildar vegna hvers fæðingarárgangs halda sér óbreyttar samkvæmt nýjum dánar- og eftirlifendatöflum. Af þessu leiðir að áunnin réttindi lækka í samræmi við eftirfarandi töflu:
Samanlögð áhrif á breytingu áunninna lífeyrisréttinda sem leiðir af 5. og 6. tölulið koma fram í eftirfarandi töflu: