Þráinn Halldórsson hefur verið ráðinn sem sérfræðingur á sviði ábyrgra fjárfestinga á eignastýringarsviði Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Með ráðningu Þráins eru nú tveir starfsmenn eignastýringarsviðs sérhæfðir á sviði ábyrgra fjárfestinga, sem endurspeglar áherslur sjóðsins á málaflokkinn.
24. ágú. 2023
Arne Vagn Olsen, forstöðumaður eignastýringar LV, segir mikinn liðsstyrk vera í Þráni, sem er reynslumikill sérfræðingur á sviði ábyrgra fjárfestinga. „Þráinn kemur með haldgóða reynslu m.a. frá eignastýringarsviði Nordea í Danmörku þar sem hann hefur verið í fararbroddi við innleiðingu á aðferðarfræði ábyrgra fjárfestinga undanfarin ár. Reynsla hans og menntun eiga eftir að leika mikilvægt hlutverk í aukinni innleiðingu aðferðarfræði ábyrgra fjárfestinga hjá sjóðnum á næstu misserum.“
Þráinn hefur undanfarin ár gegnt stöðu gagnasérfræðings á sviði ábyrgra fjárfestinga hjá Nordea Asset Management og er jafnframt í IFRS ISSB Investor Advisory Group sem m.a. spilar lykilhlutverk í þróun á SASB staðlinum. Þráinn er með B.A. í hagfræði frá HÍ og M.Sc. í fjármálum og fjárfestingum með gagnagreiningu sem aukagrein frá Copenhagen Business School auk þess að hafa staðist próf í verðbréfaréttindum.
„Ég hlakka til að láta til mín taka í að efla sjóðinn enn frekar í málefnum ábyrgra fjárfestinga og gagnagreiningar þar sem mín sérþekking og áhugasvið liggur“ - segir Þráinn.
Á eignastýringarsviði LV starfa nú 9 starfsmenn með meira en 80 ára samanlagða starfsreynslu af fjármálamörkuðum. Eignasöfn sjóðsins nema um 1.200 milljörðum króna og eru í eigu um 180 þúsund sjóðfélaga.