Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Nýjar áherslur í hluthafastefnu LV

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur undanfarin misseri lagt aukna áherslu á framkvæmd eigendahlutverks sjóðsins. Liður í því er uppfærsla stjórnar á hluthafastefnu sjóðsins í desember sl. 

Arnevagnolsen 1 Vefupplausn Arnevagnolsen 1 Vefupplausn

Í hluthafastefnunni er fjallað um atriði sem sjóðurinn leggur áherslu á gagnvart þeim félögum sem hann fjárfestir í og þeim félögum sem hann tekur til skoðunar sem fjárfestingarkost.

Hluthafastefna sjóðsins myndar heild með fjárfestingarstefnu og stefnum LV um ábyrgar fjárfestingar.  

Hér eftir sem hingað til er lögð áhersla á verðmætasköpun til langs tíma, góða stjórnarhætti, jafnræði hluthafa og fylgni við lög og önnur gild viðmið.

Meðal nýmæla í hluthafastefnunni: 

  • Ítarlegri útskýringar á þáttum er varða starfskjarastefnu fyrirtækja og upplýsingar um framkvæmd þeirra. Mið er tekið að löggjöf ESB um réttindi og skyldur hluthafa (e.  Shareholder Rights Directive II) sem verður innleidd í íslenskan rétt innan tíðar og samræmist þeim reglum sem félög í ESB starfa þegar eftir.  
  • Hvatning til fyrirtækja um að setja sér reglur um framkvæmd viðskipta tengdra aðila í takt við ákvæði laga um hlutafélög, leiðbeiningar um stjórnarhætti og tilskipun ESB um réttindi og skyldur hluthafa. 
  • Aukin áhersla á stefnu og upplýsingagjöf um sjálfbærni, með vísan til ákvæði laga um ársreikninga, gild viðmið og tilskipun ESB um sjálfbærniupplýsingar sem lögfest verður á Íslandi innan tíðar. Mikilvægt er að fyrirtæki hugi tímanlega að slíkri innleiðingu þar sem hún tekur nokkurn tíma og kallar á greiningarvinnu og stefnumótun. Máli  skiptir að fyrirtæki byggi stefnu sína og framkvæmd á mikilvægisgreiningu. Þannig er best tryggð að vinna við þessa þætti styðji við góðan rekstur, áhættustýringu og greiningu viðskiptatækifæra.  
  • Tekið er fram að æskilegt sé að formaður stjórnar sé kosinn beint af hluthöfum á hluthafafundi.  
  • Áhersla er lögð á að félög móti sér stefnu varðandi arðgreiðslur, fjármagnsskipan og stefnu varðandi aðra ráðstöfun fjármuna til hluthafa eins og kaup á eigin hlutabréfum. 
  • Ítarlegri ákvæði um tilnefningarnefndir, skipan þeirra, hlutverk og form tillagna um skipan stjórnar.  
  • Ýmis atriði sem varða hlutverk stjórna félaga. Til að mynda varðandi ráðningu forstjóra og upplýsingagjöf.  

LV mun á næstu vikum og mánuðum kynna efnisatriði stefnunnar almennt og beint gagnvart hlutafélögum eftir því sem tilefni er til. 

Viðtal við Arne Vagn Olsen, forstöðumann eignastýringar LV um hluthafastefnuna má finna í Viðskiptablaðinu 14.2.2024 og á áskriftarvef sama miðils.  

Hluthafastefna Ábyrgar fjárfestingar