Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Örorku- og barnalífeyrir

Borga ég skatt af lífeyrisgreiðslum?

Já, lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar með sama hætti og almennar launatekjur. Þú þarft því að gera ráð fyrir að greiða skatt af þeim tekjum sem þú færð frá sjóðnum eftir því skattþrepi sem þú ert í.

Á vef Skattsins er reiknivél sem áætlar skattgreiðslur af tekjum sem gott er að skoða. 

Sjóðurinn sér um að skila staðgreiðslu af lífeyrisgreiðslum til skattayfirvalda. Skattkort eru rafræn og nauðsynlegt er að láta vita hversu hátt hlutfall af skattkorti þú vilt nýta hjá sjóðnum.

Persónuafsláttur

Skattkort lækkar skattinn því það veitir rétt til persónuafsláttar á staðgreiðsluári.  Eigi lífeyrisþegi ónýttan persónuafslátt er mikilvægt að láta sjóðinn vita.

Lífeyrisþegar geta nýtt allt að 100% af ónýttu skattkorti maka til skattalækkunar.

Við fráfall maka geta lífeyrisþegar nýtt skattkort makans í 9 mánuði frá og með andlátsmánuði.

Erfist ævilangi lífeyririnn minn?

Réttindi þín sem slík erfast ekki. Hins vegar er rík fjárhagsleg vernd fyrir fjölskylduna ef þú fellur frá. Greiddur er makalífeyrir í að lágmarki 5 ár en hann er oft greiddur lengur eða þar til yngsta barn nær 23 ára aldri. Þá er barnalífeyrir greiddur fyrir hvert barn fram að 20 ára aldri þess. 

Þannig er verndin mest fyrir þá sem eiga ung börn og mestu skiptir fyrir fjölskylduna að hafa fjárhagslegt öryggi. 

 

Hver er upphæð barnalífeyris?

Mánaðarlegur barnalífeyrir með hverju barni er [childPension]. 

Hvaða skilyrði eru fyrir rétti til makalífeyris og hversu hár er hann?

Makalífeyrir er alltaf að lágmarki 60% af áunnum réttindum sjóðfélagans við 67 ára aldur. 

Mun meiri verðmæti felast alla jafna í rétti til framreiknings á makalífeyri. Það þýðir að til útgreiðslu eru þau réttindi sem sjóðfélagi hafði þegar áunnið sér við andlátið en við bætast réttindi eins og sjóðfélaginn hefði greitt til sjóðsins af sömu launum til 65 ára aldurs. Makinn fær 60% af þeim rétti. 

Til að fá bæði áunninn og framreiknaðan rétt til makalífeyris þarf sjóðfélagi: 

  • Að hafa greitt í sjóðinn í a.m.k. 3 af síðustu 4 árum fyrir andlát.
  • Að hafa greitt iðgjald í sjóðinn að lágmarki 178.435* krónur hvert þessara þriggja ára.
  • Að hafa greitt í sjóðinn í a.m.k. 6 mánuði síðasta árið fyrir andlát.

* 178.435 kr. er grunnupphæð og skal verðbætt í byrjun hvers árs skv. vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 513 í janúar 2022.  

Hversu lengi er makalífeyrir greiddur?

Í stuttu máli er makalífeyrir greiddur í að lágmarki í fimm ár en í sumum tilfellum greiðist hann lengur.

  • Ef þið eigið börn undir 23 ára aldri: Maki þinn fær makalífeyri þangað til yngsta barnið hefur náð 23 ára aldri.

  • Ef maki þinn er öryrki er makalífeyrir greiddur á meðan makinn er öryrki en að hámarki til 67 ára aldurs. 

  • Nánari upplýsingar um eldri greinar má finna í samþykktum.

Hefur skipting réttinda við fyrri maka áhrif?

Skipting réttinda milli hjóna hefur ekki áhrif á makalífeyri, hún hefur eingöngu áhrif á ævilangan lífeyri.

Hvenær á ég rétt á örorkulífeyri?

Þú þarft að vera yngri en 67 ára og hafa greitt ákveðin lágmarksiðgjöld í lífeyrissjóð í samtals 24 mánuði fyrir slys eða sjúkdóm sem veldur starfsorkutapinu. 

Skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt er að þú hafir tapað að minnsta kosti 50% starfsorku til þess starfs sem þú hafðir, að örorkan hafi varað í að lágmarki 6 mánuði og þú hafir tapað tekjum vegna þessa.

Tapa ég rétti á ævilöngum lífeyri ef ég fer á örorkulífeyri?

Nei, ef þú ert á örorkulífeyri til 67 ára aldurs tekur við ævilangur lífeyrir sem veitir sömu réttindi áfram og til æviloka.

Má ég vinna þó ég fái örorkulífeyri?

Þú mátt afla þér allra þeirra tekna sem þú getur og vilt. Hins vegar er örorkulífeyri aðeins ætlað að tryggja þér þær tekjur sem þú hafðir áður en þú misstir starfsorkuna. Þess vegna eru launagreiðslur og greiðslur frá TR dregnar frá örorkulífeyri. Þú mátt ekki hafa meiri tekjur á örorkulífeyri en þegar þú varst í vinnu.

Greiði ég af örorkulífeyri í lífeyrissjóð?

Nei, iðgjöld í lífeyrissjóð eru ekki greidd af örorkulífeyri.

Get ég greitt félagsgjald af örorkugreiðslum til stéttarfélags?

Samkvæmt lögum VR er öryrkjum heimilt að greiða 0,7% félagsgjald af örorkulífeyri sem renni í sjóði félagsins til að tryggja réttindi þeirra úr sjóðunum.

Skilyrði sem öryrki þarf að uppfylla til að öðlast þennan rétt er að hann hafi verið félagsmaður VR óslitið í fimm ár áður en til örorku kom og að árlegar greiðslur félagsgjalds af örorkulífeyri nái lágmarksfélagsgjaldi VR hverju sinni.

Hvað ef ég bý erlendis?

Á hverju ári þurfa þeir sem búa erlendis og fá greiddan örorkulífeyri frá sjóðnum að senda erlent skattframtal til sjóðsins á live@live.is fyrir 15. október ár hvert. 

Sjóðfélagar sem búa erlendis þurfa að koma upplýsingum um netfang sitt til sjóðsins eða skrá það inn á Mínar síður.

Hvað tekur ferlið langan tíma?

Almennt má búast við að ferlið vegna umsóknar um örorku taki 8-12 vikur.