Hvað er makalífeyrir?
Við fráfall fer hluti réttinda sjóðfélagans til maka hans og barna. Makalífeyrir er greiddur í að lágmarki fimm ár og einnig þar til yngsta barn verður 23 ára, auk barnalífeyris til 20 ára aldurs barns.
Þarf ég að sækja um ?
Já, nauðsynlegt er að sækja um makalífeyri með rafrænni umsókn. Ef ekki hefur verið sótt um makalífeyri innan tveggja mánaða frá því að tilkynning berst til þjóðskrár um andlátið sendum við bréf til eftirlifandi maka til að minna á umsóknina.
Ef þið eigið börn eða kjörbörn undir 20 ára aldri þá gæti jafnframt verið réttur til barnalífeyris.
Séreign sem erfist
Hafi maki átt séreignarsparnað þarf að kanna til hvaða vörsluaðila greitt var. Margir eiga inneign á fleiri en einum stað. Því miður er ekki til eitt yfirlit yfir inneign hjá öllum vörsluaðilum og þarf því að kanna inneign hjá hverjum og einum þeirra.
Þegar maki á séreign hjá okkur þarf að skila inn yfirliti yfir framvindu skipta því séreign skiptist samkvæmt hjúskapar- og erfðalögum. Ef yfirlit yfir framvindu skipta skilar sér ekki til okkar þá pöntum við það frá sýslumanni og sendum bréf til erfingja til upplýsingar.
- Inneign er færð á erfingja og kallast erfðaséreign, maki fær ⅔ og börn ⅓.
- Ef ekki er maki skiptist séreignin jafnt milli barna.
- Ef maki eða börn eru ekki fyrir hendi rennur inneignin til dánarbúsins.
- Erfðaséreign er hægt að taka út strax eða ávaxta hana hjá sjóðnum.
- Ekki er greiddur erfðafjárskattur af inneign maka og barna en tekjuskattur er greiddur við úttekt.
- Ekki er hægt að nýta erfðaséreign inn á lán vegna íbúðarkaupa.
Aðstoð vegna greiðsluerfiðleika
Hafir þú eða maki þinn verið lántakendur hjá sjóðnum er gott fyrir þig að vita að sjóðurinn býður ýmsar leiðir til að mæta tímabundnum greiðsluerfiðleikum vegna breytinga á aðstæðum sjóðfélaga.