Réttur til makalífeyris
14.1. Nú andast sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins og á þá eftirlifandi maki hans rétt til lífeyris úr sjóðnum samkvæmt þeim reglum sem hér fara á eftir, sbr. þó gr. 11.19.
Lágmarksgreiðslutímabil
14.2. Óskertur makalífeyrir skv. gr. 14.7. er ætíð greiddur eftirlifandi maka í minnst 36 mánuði og að hálfu í 24 mánuði til viðbótar.
Réttur vegna yngsta barns
14.3. Eftirlifandi maki fær þó ávallt greiddan makalífeyri þar til yngsta barn sem var á framfæri sjóðfélagans nær 23 ára aldri enda sé það á framfæri makans.
Eftirlifandi maki er öryrki
14.4. Ef maki sjóðfélaga er að minnsta kosti 50% öryrki við andlát sjóðfélaga og yngri en 65 ára hlýtur hann lífeyri úr sjóðnum, þó eigi lengur en til 67 ára aldurs, sem er sami hundraðshluti af makalífeyri samkvæmt gr. 14.7. og orkutap hans er metið en þó ekki lægri fjárhæð en sem nemur 60% af áunnum örorkulífeyri sjóðfélagans við andlát miðað við 100% örorku. Örorku skal meta á þriggja ára fresti eða eftir mati trúnaðarlæknis.
Maki fæddur fyrir 1945
14.5. Ef maki sjóðfélaga er fæddur fyrir 1945 á hann rétt á makalífeyri. Makalífeyrir reiknast samkvæmt gr. 14.7. en lækkar um 2% fyrir hvert ár, sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1925, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1930, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1935 og 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1940.
Verðbætt iðgjald
14.6. Maki sjóðfélaga getur þó ávallt valið um hvort hann fær greiddan makalífeyri skv. ákvæðum gr. 14.2. - 14.5. eða fái greiddan makalífeyri, sem jafngildir þeim verðbættu iðgjöldum, sem greidd hafa verið vegna sjóðfélagans til og með iðgjaldsmánuðinum desember 2014, en að frádregnum verðbættum örorkueða ellilífeyri sem sjóðfélaginn kann að hafa notið. Mánaðafjöldinn, sem greiða skal makanum lífeyri samkvæmt þessari aðferð, fæst með því að deila í verðmæti iðgjaldanna, að frádregnum lífeyri sjóðfélagans, með makalífeyri skv. ákvæðum gr. 14.2. - 14.5.
Fjárhæð makalífeyris
14.7. Fjárhæð makalífeyris nemur 60% af lífeyrisréttindum samkvæmt gr. 13.5.
Niðurfelling makalífeyris
14.8. Réttur til makalífeyris fellur niður, ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar, eða stofnar til staðfestrar samvistar.
Hugtakið maki
14.9. Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans.