Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur birt fjárfestingarstefnu 2026. Um litlar breytingar frá fyrri stefnu er að ræða sem m.a. helgast af yfirstandandi ráðgjafarvinnu með erlenda ráðgjafarfyrirtækinu Mercer.
16. des. 2025
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur birt fjárfestingarstefnu 2026. Um litlar breytingar frá fyrri stefnu er að ræða sem m.a. helgast af yfirstandandi vinnu með erlenda ráðgjafarfyrirtækinu Mercer eins og fram kom í viðtali við forstöðumann eignastýringar í Morgunblaðinu í nóvember.
Brot úr viðtalinu við Arne Vagn Olsen, forstöðumann eignastýringar:
Strategískt til lengri tíma
Vinnan með Mercer skiptist í nokkur þrep að sögn Arne Vagns. „Fyrst voru ávöxtunarmarkmiðin skilgreind út frá greiningu á skuldbindingum sjóðsins. Í framhaldi af því bjuggum við til fjárfestingarstefnu sem nær þessu markmiði og horfir til lengri tíma. Nú erum við búin að skilgreina hvað það þýðir að ná hámarksávöxtun til lengri tíma. Við erum búin að setja upp töluleg gildi og erum að stilla eignasafnið af í samræmi við það,“ segir Arne Vagn. Útkoman er að hans sögn uppfært eignasafn til langs tíma, strategískt eignasafn, eins og hann orðar það.
„Þetta mun festa stefnuna til framtíðar og þýðir að við munum sjá minni breytingar milli ára í fjárfestingarstefnu sjóðsins.“
Aðspurður hvort niðurstaða vinnunnar með Mercer muni þýða miklar breytingar á eignasafni segir Arne Vagn svo ekki vera. „Vinnan hefur leitt í ljós að við erum nálægt því eignasafni sem hentar sjóðfélögum til lengri tíma. Við munum sjá smávægilegar breytingar í eignasamsetningu en þær verða litlar. Með öðrum orðum erum við nú þegar með eignasafn sem hentar vel en getum fínstillt það til þess að ná enn betri árangri til lengri tíma.“