Ég vissi ekki hvað áfallaverndin var öflug – fyrr en ég þurfti á henni að halda
Ég vissi ekki hvað áfallaverndin var öflug – fyrr en ég þurfti á henni að halda
Sigrún Hildur Guðmundsdóttir er 54 ára deildarstjóri ráðgjafarteymis sjóðsins. Hún kom til sjóðsins 2016 og var áður yfirmaður þjónustudeilda bæði hjá SPRON og MP banka samtals í 14 ár. Sigrún segir frá sér og teyminu sínu og hvernig lífeyrisréttindi hafa skipt hana og hennar fjölskyldu miklu máli.
31. okt. 2025
Hvers vegna sóttir þú um starf hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna?
Mér fannst LV alltaf fremsti lífeyrissjóðurinn og fannst hann alltaf vera með nýjungarnar og aðrir vera að elta. Það fannst mér mjög spennandi og langaði að vinna á þannig vinnustað.
Ég var búin að vera lengi starfandi á fjármálamarkaði og hafði reynslu af stjórnun á framlínueiningu eins og ráðgjafarteyminu. Ég þekkti sumar vörurnar vel, eins og séreignarsparnaðinn og húsnæðislánin og hafði áhuga á að læra meira um lífeyrismál. Á þessum tímapunkti vissi ég ekkert um áfallaverndina sem fylgir því að greiða í samtryggingarsjóð.
Þegar eitthvað alvarlegt gerist er gott að vera í rétta sjóðnum.
Sigrún og stelpurnar hennar
Hver eru þín helstu verkefni í vinnunni?
Ég hugsa um þjónustu alla daga: hvernig við getum þjónustað sjóðfélaga sem allra best, haldið góðu svarhlutfalli, stytt biðtíma og aukið ánægju með svör. Þetta er krefjandi þar sem mikið er að gera hjá okkur. Í teyminu eru fjórar af fimm alvanar bankakonur sem veita sjóðfélögum upplýsingar og ráðgjöf um lífeyris – og lánamál. Ég tek virkan þátt í ráðgjöf samhliða því að skipuleggja deildina. Kosturinn við að vera í sömu verkefnum og ráðgjafarnir er að ég sé beint hvaða spurningar sjóðfélagar hafa hverju sinni.
Ráðgjöfin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Stærsti hluti starfsins er nú markviss ráðgjöf um lífeyris- og lánamál fremur en almenn afgreiðsla eða upplýsingagjöf.
Við bjóðum sjóðfélögum að bóka tíma með ráðgjafa, í síma eða á staðnum, og endurgjöfin hefur verið mjög jákvæð—fólk mælir með þjónustunni og hvetur aðra til að leita til okkar.
Mér finnst ánægjulegt að geta hjálpað fólki við ýmislegt—það hafa ekki allir tíma eða tök á að lesa sig í gegnum mál eða fylla út umsóknir. Þar skiptir stuðningur okkar máli.
Hvað kannt þú best að meta við vinnustaðinn?
Það er einfalt. Hvað það er vel hugsað um starfsfólkið. Það er ekkert mál ef eitthvað kemur upp á í persónulega lífinu. Ég fann fullan skilning, umhyggju og sveigjanleika í veikindum mannsins míns og þegar hann lést. Það var haldið þétt utanum mig.
Svo á ég á góða vini hérna sem mér finnst mjög mikilvægt.
Og ekki má gleyma okkar góða bistró, sem ég elska! Hvað er í matinn í dag er bara tilhlökkunarefni alla daga.
Það er alltaf gaman hjá Sigrúnu og helst vill hún vera úti að hlaupa, ganga eða hjóla - nema hún sé í golfi auðvitað
Er eitthvað sem þú vilt deila með sjóðfélögum? Góð ráð eða innsýn í eitthvað sem fáir vita um?
Ég vildi að fleiri vissu hvað áfallaverndin er ótrúlega góð og hvað hún grípur mann ef eitthvað kemur upp á. Eins og ég hef reynslu af þegar maðurinn minn veiktist og lést. Maka- og barnalífeyrinn skiptir ótrúlega miklu máli þegar lífið þarf að halda áfram.
Svo er eitt sem nánast enginn veit nema sérfræðingar í lífeyrismálum en þetta er risastór trygging sem getur skipt fólk öllu máli. Það er réttur til framreiknings þegar þú borgar í samtrygginguna í meira en þrjú ár. Ef þú veikist eða lendir í slysi og þarft að fá örorkulífeyri þá færðu ekki bara það sem þú hefur borgað hingað til heldur færðu greiðslur út frá því hvað þú hefðir áunnið þér til starfsloka. Þetta á líka við um makalífeyri.
Fólk heldur að séreign dugi alltaf – en hún ver þig ekki.
Svo vil ég hvetja ungt fólk til að borga allt lögbundna iðgjaldið í samtryggingu, að minnsta kosti til 35-40 ára aldurs. Þú færð svo mikil réttindi fyrir iðgjaldið þegar þú ert yngri. Færð mestu verðmætin í ævilöngum lífeyri og áfallaverndina í kaupbæti.
Séreignin er góð en hún klárast og gefur enga áfallavernd. Ef þú ert lengi frá vinnu þá klárast hún en réttindin í áfallavernd gera það ekki. Þegar fólk er um fertugt þá má fara að skoða að auka séreignina og bæta við tilgreindri séreign.
Sigrún er á kafi í kvennastarfinu í golfklúbbnum Oddi
Hvað er framundan hjá þér í persónulega lífinu?
Einmitt núna er ég hrikalega spennt því ég er á leiðinni í fyrstu golfferðina mína með 10 hressum konum til Marrakesh. Þegar ég byrjaði í golfi varð ekki aftur snúið. Ég tek þátt í öllum golfmótum og er á fullu í kvennastarfinu í Oddi. Ég elska að hreyfa mig og vil helst vera úti hlaupandi, hjólandi eða labbandi.
Ég er endalaust á ferð og flugi því annar strákurinn minn býr í Gautaborg og hann á tvær litlar snúllur sem amma þarf að hitta sem oftast. Hún Hilda mín hringir sem betur fer oft í mig á Messenger – það er ekkert lítið skemmtilegt að fá símtal frá henni. Við erum svo miklar vinkonur.
Sigrún Hildur með strákunum sínum, tengdadóttur og Hildu ömmumús